Skírnir - 01.01.1955, Page 57
Skírnir
Síðasti erkibiskupinn í Niðarósi
53
verið þar vel stætt og duglegt bænda- og útvegsfólk. Talið
er, að Kristján I. hafi aðlað föður Ólafs, og víst er, að Ólafur
sjálfur notaði aðalsmerki í innsigli sínu, — þrjár liljur og
rós.
Um æskuár Ólafs vita menn ekkert, en talið er víst, að
fyrstu kirkjulega menntun sína hafi hann hlotið hjá föður-
bróður sínum, Saksa Gunnarssyni, er var formaður dóm-
klerkanna í Niðarósi.
En það fyrsta, sem með fullum sanni er kimnugt um Ólaf
Engilbertsson, er, að hann innritaðist árið 1503 í háskól-
ann í Rostock, þá ungur stúdent. Þar lauk hann bakkalaureus-
prófi árið 1505 og meistaraprófi árið 1507. Síðan dvaldist
hann áfram í Rostock átta ár eða til 1515 sem stjórnandi
norska stúdentaheimilisins þar, en hvarf þá heim til Noregs.
Háskólinn í Rostock, sem stofnaður hafði verið árið 1419,
var mjög sóttur af Norðurlandastúdentum á 15. öld, einnig
eftir að háskólarnir í Uppsölum og Kaupmannahöfn höfðu
verið stofnaðir á síðari hluta aldarinnar. Yfirleitt var Rostock-
háskólinn gamaldags og íhaldsamur, en er komið var fram
um 1500 hafði þó húmanisminn náð þar allmiklum tökum.
Sérstaklega kom hann fram í vaxandi þjóðernisstefnu, aukn-
um áhuga á móðurmálinu og sagnritun margvíslegri.
Einn af prófessorunum í Rostock, Nicolaus Marschalk, var
að mörgu leyti frumkvöðull hins norðurþýzka húmanisma á
þjóðlegum grundvelli. Um 1510 dvaldist og sjálfur Ulrich von
Hutten í Rostock og flutti fyrirlestra við háskólann. Hann
var sá maður, er einna mest bar á í þýzku menningarlífi
um þessar mundir — fullur af lífskrafti og brennandi áhuga
á öllu þjóðlegu, eins konar æðsti prestur andlegra uppreisnar-
manna á Þýzkalandi, — þeirra sem harðast börðust gegn
stöðnuðu námi og kennsluaðferðmn við skólana og andlegri
yfirdrottnun kirkjunnar. Fleiri slíka menn mætti nefna, sem
koma við sögu i Rostock um þetta leyti, þótt ekki hefðu þeir
svo mikil áhrif sem Marschalk og Hutten, og víst er, að
margir þeir, sem námu í Rostock á þessum árrnn, létu síðar
mikið að sér kveða í heimalöndum sínum bæði sem þjóðlegir
fræðimenn og föðurlandssinnar í stjórnmálabaráttunni. Má