Skírnir - 01.01.1955, Side 67
Skírnir
Síðasti erkibiskupinn i Niðarósi
63
það reist á hólma þar í firðinum, er Steinvíkurhólmi heitir.
Ætlun erkibiskups var, að kastali þessi væri svo traustur, að
hann gæfi ekki eftir hinum gömlu aðalvígjum landsins, Bó-
húsi, Akurshúsi og Björgvinjarhúsi. Enn fremur hafði erki-
biskup allmikið lið og herskipaflota til varnar léni sínu í
Þrændalögum.
Eftir að Vinsens hafði látið af höfuðsmannsembætti, hvarf
hann mjög frá sinni gömlu stefnu, að viðhalda og vernda
sjálfstæði Noregs. Gerðist hann nú miklu konunghollari en
áður, efldi eftir mætti Lúterstrú og hugðist þannig auka álit
sitt hjá konungi. Þetta athæfi hans féll erkibiskupi vitaskuld
illa, en þó verst það, að Vinsens tók nú að leggja undir sig
Nunnusetursklaustur og jarðeignir þess. Erkibiskup taldi kirkj-
una eina geta ráðstafað þessum eignum.
Hófust nú margvíslegar ýfingar með þeim, og hvöttu ýmsir
liðsmenn erkibiskups hann til árása á Vinsens og tengdafólk
hans. En þetta fólk var að þeirra dómi bæði villutrúarmenn
og föðurlandssvikarar. Leiddi þetta til þess, að herstjórnar-
menn erkibiskups hófu margs konar skæruhemað á lén Vin-
sens og einstök stórbýli. Tóku þeir þar mikil verðmæti, inn-
heimtu skatta, handtóku fógeta Vinsens og frömdu hin verstu
spjöll. Var konungi ósárt um Vinsens, því að erkibiskupi,
sem sífellt fullvissaði hann um trúmennsku sína, hafði nú
tekizt að koma sökinni vegna Dalajungkerans og skyldum
sökum yfir á hann.
Árið 1530 komust þó á sættir að kalla, og var samið um,
að Vinsens fengi bættan skaða allan, er menn erkibiskups
höfðu bakað honum.
En hvað sem öllum fullyrðingum um trúmennsku við
konung leið, tók erkibiskup, er hér var komið, að þrjózkast
meir við boðum hans en verið hafði um skeið. Kom þar bæði
til vaxandi yfirgangur Dana í Noregi og eins stuðningur
konungs við Lúterstrú. Neitaði erkibiskup sífellt að koma til
herradaga þeirra, er konungur boðaði hann til, einnig kom
hann sér hjá því að hylla son konungs sem ríkisarfa í Noregi,
og um þetta leyti tók hann með mikilli leynd upp samband
við hinn afsetta konung, útlagann í Niðurlöndum, Kristján II.