Skírnir - 01.01.1955, Page 83
Skírnir
H. C. Andersen
79
Stundum eigna menn samúð skáldum, sem ekki eiga það
skilið, en um Andersen á þetta í sannleika við. Samúðin, með-
aumkunin er innsta taug skáldskapar hans. Hún veitti honum
hæfileika til að setja sig í spor annarra manna, lifa með hug
þeirra og hjarta. Þegar Andersen er að lýsa sorgum manna og
þrám, er það engin fagurfræðileg hugsmíði: hann þekkti bölið
í návígi, eymdina sem beiskan veruleika. Hann skildi í alvöru
raunir manna jafnt og gleði. 1 góðvild sinni leið hann með
öðrum blítt og strítt, í góðvildinni faðmaði hann alla að sér
sem bræður og systur. Án góðvildarinnar væri list hans hljóm-
andi málmur og hvellandi bjalla.
Ef H. C. Andersen vaknaði nú upp úr gröf sinni, mundu
hátíðahöldin um allan heim gleðja hann. Vera mætti, að í eyr-
um honum hljómuðu þá gamalkunn orð: „Eru þeir nú ekki
að gera gys að yður, Andersen?“ En nú mundu þessi orð
ekki særa hann lengur, hann mundi með fullkominni ró svara:
„Nei“. Hann mundi benda á, að verk hans er orðið að eign
allrar veraldarinnar, þáttur í lífi mannanna, gleði þeirra og
sorg, það lifir nú í hjörtum milljónanna. Frægðin, sem hann
sóttist eftir, veitti honum mikla gleði, en þessi gleði er enn
meiri, hin mikla, djúpa gleði þess manns, sem auðnast að gefa
heiminum sannar og varanlegar gjafir.