Skírnir - 01.01.1955, Blaðsíða 125
Skírnir
Hvar var Snorri nefndur höfundur Heimskringlu?
121
út í uppskriftum, og ýmsar þeirra komust til Danmerkur í
hendur sagnfræðinga þar. Þeir sáu brátt að þessi útdráttur var
sama kyns og útdrættir Chr. Pedersens, og eignuðu ritið þess
vegna Isleifi biskupi og Ara, en í útdrætti Mattis Storssons
var einskis höfundar getið og Hkr.-formálanum með öllu sleppt.
Loks lét Arild Huitfeldt prenta útdrátt þennan árið 1594, og
er hann því það fyrsta sem á prenti birtist eftir íslenzkum
fomritum, ef frá eru talin þau not sem Arngrímur lærði hafði
af þeim í Brevis commentarius.
1 lok 16. aldar (1599) þýddi norski presturinn Peder Claus-
sen Friis Heimskringlu eftir handriti sem nú er glatað,1 og
jók aftan við hana útdrætti Mattis Storssons úr Sverris sögu og
þýðingu á Böglunga sögum og Hákonar sögu Hákonarsonar
eftir handriti sem nú er ekki lengur til. Auk þess bætti hann við
minni háttar viðaukum úr Bergsbók og fleiri handritum. Þessa
þýðingu gaf Worm síðan út árið 1633, sem fyrr segir. Enginn
efi er á að Peder Clausson var ljóst að Snorri var höfundur
Hkr., því að hann getur þess tvívegis í ritum sínum að Snorri
hafi skrifað konungasögur. 1 athugasemd við ritgerð sína um
Island segist P. Cl. hafa þýtt á dönsku hina gömlu norsku
kroníku Snorra Sturlusonar2, og í ágripi af Noregskonungasög-
um sem P.Cl. samdi er einnig minnzt á sagnaritun Snorra með
þeim hætti að sýnilegt er að P. Cl. var henni vel kunnugur3.
Á sjálfan formálann að Hkr. í þýðingu P. Cl. verður minnzt
síðar. Þess eru engin merki að P. Cl. hafi þekkt þýðingu
Laurents Hanssons, og verður því að teljast sennilegast að vitn-
eskja hans um höfund Hkr. sé runnin frá sjálfu handritinu sem
hann þýddi eftir.
Lítum nú snöggvast á hvernig þessar staðreyndir sem nú
hafa verið raktar koma heim við hina venjulegu kenningu að
Snorri hafi verið talinn höfundur Hkr. i formála Kringlu.
1 Svo taldi Storm, Snorre Sturlassöns Historieskrivning 223—26, og
aðrir siðan. Má telja ástæðulaust að rengja það, þrátt fyrir efasemdir E.
E. Johnsens (SagasprSk og stil 153—9); sbr. aths. Bjarna Aðalbjamarson-
ar, ísl. fornr. XXVIII, hls. XCIX—C.
2 Sjá Samlede Skrifter af Peder Clausson Friis, bls. LXI, 191.
3 Sjá sama rit bls. 142; sbr. Isl. fornr. XXVI, bls. VII—VIII.