Skírnir - 01.01.1955, Side 207
Skímir
Ritfregnir
203
bil, hjálpar henni til að dytta í bílinn, og í launa skyni tælir hún hann
til lags við sig. Hann heldur síðan áfram að bjástra við gamla bílinn
sinn — smíðaár 1940 —, útvegar drukknum mönnum áfengi og drekkur
sjálfur — í hófi, styttir sér stundir við tafl, meðan hann bíður á stöðinni,
unz „pian“ kallar í hátalarann: „Sjötíu og níu af stöðinni". Einn af
félögum hans verður fyrir þeirri ógæfu að aka á barn, — og þá er
upptalið það, sem leikmaður ætlar helzt frásagnar vert í starfi leigu-
bílstjóra. Indriði G. Þorsteinsson má þar trútt um tala, því að hann
ók áður fólksbil á bifreiðastöð á Akureyri. Hann lýsir hér því fólki og
umhverfi, sem hann þekkir út í hörgul. Hann setur ekki á langar ræður,
heldur bregður upp snöggum myndum, sem eiga að renna saman eins og
kvikmyndir á tjaldi. Auga hans er yfirleitt mjög glöggt, myndirnar lífi
gæddar, en þótt allt virðist einfalt og sjálfsagt, þá er ekki öllum gefin
slik sjón. Vera má, að mönnum þyki litlu varða sumt, sem þarna er
sagt, en allt eru það drættir í þeim leifturmyndum, sem upp eru dregn-
ar af Ragnari Sigurðssyni og umhverfi hans. Frásögnin er ákaflega
liðug, samtölin stutt og hröð. Yfir öllu hvílir blæja kuldans, væntan-
lega til að dylja þá glóð, sem undir niðri býr. Höfundur er hófsamur,
heldur sig á heimaslóðum, færist ekki meira í fang en hann ræður við.
I sögunni er að kalla enginn áróður annar en sá, sem lesa mó úr hinni
hlutlausu mynd, aðeins á stöku stað skýzt upp úr höfundi, hvert stefnt
er. Á 111. bls. segir hann t. a. m.: „Það var vont að finna uppgjörið og
hrunið innan í sér og undanhaldið að hafa ekki reynt að losna úr sifelldri
og dauðamerktri endurtekningu áranna í borginni, og vera maður og
ekki stýrisvél í þessum gamla bíl. Hafa í staðinn gras undir fótum og
ekki malbikið né vélina og kalt járnið, heldur dýrin og stolt þeirra
og tíginleik."
En þótt saga sé einföld í sniðum, er ekki endilega víst, að auðvelt
sé að segja hana, og víða þykir mér þessi saga slægvitur í sínum einfald-
leik. Ég nefni til dæmis frásögnina um það, þegar Ragnar flytur viský-
flöskuna í Faxenhúsið, og misklíð hans og Guðmundar vinar hans að
því loknu. En í sögu má ekkert gerast, sem er óþarft eða brýtur lögmál
skáldverksins, og Indriði hefur ekki með öllu sloppið hjá slíku. Tvö dæmi
skulu hér nefnd. Frásögnin um helsingjaveiðarnar er óþarft innskot, sem
slítur aðalþráð sögunnar. Og háttalag frú Guðríðar Faxen í síðasta
kafla kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum; þessi snögga endurfæðing
er óhafandi, af því að hún á engar rætur fyrr í sögunni.
Þessi saga er að nokkru leyti vaxin upp af persónulegri reynslu höf-
undar, þegar hann ók bifreið sinni á stöð norður á Akureyri. En mörg
skepnan á sér tvo foreldrana, og svo mun einnig farið skáldsögu Indriða
G. Þorsteinssonar. Það er í almæli og hefur einnig verið sagt á prenti,
að sagan sé stæld eftir skáldverkum frægasta og áhrifamesta rithöf-
undar, sem nú lifir, Randarikjamannsins Ernests Hemingways. Á Indriði
jafnvel að hafa bjargazt við íslenzkar þýðingar til að komast hjá því