Skírnir - 01.01.1955, Side 209
Skírnir
Ritfregnir
205
af þvi þeim hefur sýnzt engar gæti betri. 1 hverju landi spruttu upp
rithöfundar á síðasta áratugi, sem var það metnaðarmál að skrifa eins
og Hemingway. Ymsir gerðu sig að viðundri á þessu. En þótt stíll
Hemingways sé stíll aldarinnar par excellence, — þótt andi tímabilsins
milli heimsvaldastríðanna hafi holdgazt í orðfæri þessa margslungna
snilldarmanns, þá er hann svo sérkennilegur, að það er auðvelt að benda
á hann, hvar sem örlar á honum í verki annars manns. Stíl þessum hefur
meðal annars verið líkt við hreyfingar grannvaxins aflraunamanns, og
er það hnyttin líking, þótt hún nái skammt, enda sizt einhlítt að „grenna
sig“ og herma eftir Hemingway til þess að verða góður skáldsagna-
höfundur á nútima vísu. Hitt er öruggara að kunna að varast hann rétt,
þó maður þekki hann vel.“
Þó að eitt skáldverk sé stælt eftir öðru, þá getur hið síðara haft nokkuð
til síns ágætis. Það er vafalaust, að margir hafa lesið sögu Indriða með
ánægju og hrifningu. Þó er margt hið bezta í henni frá meistaranum
komið: myndvisin, einfaldleikinn og hin hröðu samtöl. En í augum allra
þeirra manna, sem þekkja sögur Hemingways, hlýtur Indriði að gera
sig að viðundri, unz hann hefur lært „að varast hann rétt“.
Jónas Kristjánsson.
Joseph Bédier: Sagan af Trístan og ísól. Einar Öl. Sveinsson íslenzk-
aði. Heimskringla, Reykjavík 1955.
Islenzkir lesendur hafa áður þekkt nokkur skáldverk um þær persónur.
sem i þessari bók eru nefndar Trístan og Isól. Á fyrra hluta 13. aldar
skrifaði norskur munkur, bróðir Róbert, Trístrams sögu á norrænu eftir
frönsku kvæði. Sú saga var samin að hoði Hákonar Noregskonungs, sem
síðar var nefndur hinn gamli, og var þetta einn þáttur í þeirri viðleitni
hans að veita straumum suðrænnar menningar til ættjarðar sinnar.
Löngu síðar orti einhver ókunnur íslendingur danskvæði um ævilok
Tristans og unnustu hans, sem þar er nefnd hjarta Isodd. Um það
kvæði hefur verið sagt, að það „skari að fegurð fram úr öllum öðrum
sögukvæðum um Trístan" (sjá Sig. Nordal: Islenzk lestrarbók, 1. útg.,
19. bls.). Siðast á 18. öld kom út dönsk saga um „Tristant og Indíönu",
og eftir henni ortu þeir sínar rimurnar hvor Sigurður Breiðfjörð og
Níels skáldi, en séra Vigfús Reykdal þýddi söguna á íslenzku. Þá er
hið mikla og átakanlega skáldverk um éstina og dauðann orðið ellibleikt,
enda eru rimur Breiðfjörðs nú nær einvörðungu kunnar vegna þess, að
Jónas Hallgrimsson skrifaði um þær afar-harðan ritdóm í Fjölni 1837.
En það er því líkast sem þetta forna söguefni hafi í sér fólgin neista,
sem aldrei getur kulnað út, og á síðustu hundrað árum hefur það tví-
vegis skinið fyrir veröldinni á nýjan leik. Richard Wagner samdi um
það óperuna „Tristan und Isolde", og Joseph Bédier skrifaði „riddara-
sögu“ á frönsku nútiðarmáli eftir þeim skáldritmn, sem hann vissi forn-
ust og næst hinni upphaflegu mynd.