Skagfirðingabók - 01.01.1993, Page 43
KENNARINN Á KRÓKNUM
kennurum undir íslenska fánann, kvaddi þennan aðalvettvang
ævistarfs síns og hélt með alla hersinguna til að vígja „Nýja-
skóla, austur og suður á Mölunum."
I Sögu Sauðárkróks segir: „Jón átti oft kost á betri stöðum en
honum buðust á Sauðárkróki, enda talinn með kunnustu skóla-
mönnum landsins. Hann kaus að eyða ævinni í byggðarlagi
sínu. Störf hans þar á opinberum vettvangi eru líka meiri en
nokkurs annars manns. Enginn átti lengri starfsferil við skólana
þar en hann.“
Þegar litið er til alls þess sem Jón Þ. Björnsson fékk áorkað á
öðrum sviðum samhliða skólastjórastarfinu sést að áhuginn og
starfsþrekið hafa verið með ólíkindum. Allt sem hann tók sér
fyrir hendur vann hann af samviskusemi og stakri vandvirkni
ofan í smæstu atriði og slík vinnubrögð krefjast tíma og hug-
arorku. Lengstum kenndi hann ríflega fulla kennslu og á fyrstu
árum skólans, þegar forystuhlutverk í félagsstörfum hlóðust á
hann hvert af öðru, gekk hann reyndar nærri heilsu sinni í
ákafanum við að leysa allt sem best af hendi. Annirnar urðu
ekki minni þegar á leið, frekar hitt þegar heimilið stækkaði,
svo úthaldið hlýtur að hafa eflst við átökin.
U ngmennafélagið
Það var mikill hugur í ungu fólki upp úr aldamótunum. Fram-
farir í atvinnuháttum gáfu fyrirheit um betri lífskjör. Sjálf-
stæðismálið hafði rífandi meðbyr og þjóðleg vakning greip um
sig. Þessi bjartsýni baráttuandi líkamnaðist í ungmennafélög-
um sem spruttu upp víða um landið og áttu sér háleit mark-
mið.
1907, árið áður en Jón kom heim frá námi, gengust bræður
hans, Sigurður og Þorbjörn, fyrir stofnun ungmennafélags á
Sauðárkróki ásamt tveimur öðrum búfræðingum frá Hólaskóla.
Á stofnfundinum bættust tvö systkina hans, Guðrún og Stefán,
41