Skagfirðingabók - 01.01.1993, Page 128
SKAGFIRÐINGABÓK
unum sínum fasr eftir. Bréf hennar til Sigurðar á Reynistað,
þar sem hún tilkynnir honum lát Stefáns eiginmanns síns, ber
vott um þessa öguðu framkomu. Það er vel skrifað, fastri og ör-
uggri hendi, og með mikilli stillingu flytur hún sorgartíðind-
in. En Eh'n var einnig tilfinningaheit, þótt hún flíkaði þeim
ekki venjulega. Viðbætirinn, sem hún skrifar svilkonu sinni
Sigríði, er skrifaður með allt annarri hendi, þá leyfir hún sér að
sýna sorgina og sársaukann.
Kennsla Elínar var mjög rómuð. Fór þar saman einlægur
áhugi og mikil þekking. Stjórnsemi hennar og reglusemi var
viðbrugðið. Séra Eggert Briem á Höskuldsstöðum, sem var í
skólanefnd Eyjarskólans, sagði að í skólanum væri öllu stjórn-
að, smáu sem stóru, en þó fyndi enginn til neinnar stjórnar.41
Slíkt er list. Námsmeyjar, sem skrifað hafa minningar sínar frá
skólaárunum, segja að heimilislífið þar hafi verið glaðvært,
þrátt fyrir aga og reglur. Það kemur einnig víða fram, að Elín
hafi stutt efnalitlar stúlkur með því að útvega þeim góðar vist-
ir og jafnvel lánað þeim fé.
Síðustu árin ritaði Elín nokkrar minningar frá æsku sinni og
uppvexti í Skagafirði. Síðasta árið eða síðustu árin var hún oft
lasin, en hún var óvön því að hafa ekki eitthvað fyrir stafni svo
að hún ritaði endurminningar sínar stundum rúmliggjandi.
Hún andaðist að heimili sínu í Reykjavík 4. desember 1937.
„Amma Elín var afskaplega fróð kona og mér þótti gaman
að heimsækja hana þegar ég var barn, sem ég gerði oft,” segir
Bryndís Jónsdóttir, Stefánssonar, listmálara.42 „Hún var ákveð-
in í skoðunum, en maður bar virðingu fyrir henni, hún var svo
mikill persónuleiki og hún var svo fróð að mér barninu fannst
gaman að hlusta á hana.“
Eftir að hafa rýnt í lífsstarf Elínar og lesið frásagnir hennar
og umsagnir annarra og síðast en ekki síst lesið bréf hennar,
41 Sama heimild, bls. 33.
42 Bryndís Jónsdóttir, í samtali við höfund.
126