Skagfirðingabók - 01.01.1993, Síða 151
FLÓTTIJÓNS PÁLMA JÓNSSONAR
mótin ágúst-september. Sakir stóðu og svo, að þeir félagar áttu
enga þá að þar á Siglufirði, sem líklegir væru til þeirrar fyrir-
greiðslu og þeir gætu snúið sér til. Varð því að hætta á þau
bjargráð, er finnast kynnu, þegar þangað væri komið.
Það varð þeim félögum nokkurt viðfangsefni, hversu fundin
yrði viðunandi átylla, er fullgild væri til þess að Hjálmar yfir-
gæfi heimilið um sláttinn frá talsverðu heyi, að öðrum mönn-
um ógleymdum, svo fáliðaður sem hann var. Til þess urðu að
liggja gildar ástæður. Hjálmar átti bróður þann, er Hreggviður
hét. I þann tíð var hann sölumaður hjá Garðari Gíslasyni stór-
kaupmanni í Reykjavík. Hjálmar kom þeirri sögu á loft að
Hreggviður hefði í bréfi óskað þess mjög eindregið, að þeir
bræður næðu tali saman á Siglufirði ákveðinn dag. Treystist
Hjálmar ekki til að hafa þessi tilmæli að engu. Bar sig þó illa
yfir. Bjó Hjálmar því för sína og fór að engu hljóðlega. Um það
mun hafa verið hljóðlátara, að tveir hestar voru og járnaðir til
þessarar ferðar, annar á Blöndubakka á Refasveit, hinn á Kirkju-
bæ í Norðurárdal, en móðursystur Jóns Pálma voru húsmæður
á þessum bæjum. Voru báðir reyndir að harðfengi og dug.
Að kvöldi 24. ágúst [1915] var förin hafin og haldið austur
Balaskarð. A Þröskuldi, sem mun vera nálægt vatnaskilum
milli héraðanna, var setið fyrir þeim. Var þar kominn sendi-
maður frá Kirkjubæ með hesta þá, sem áður eru nefndir. Voru
þeir því með fjóra hesta. Héldu þeir sem leið liggur niður
Gönguskörð til Sauðárkróks og fóru mikinn. Reið þeim mjög á
að ná þangað á ákveðnum tíma eða fyrir kl. eitt um nóttina.
Þeir höfðu sent mann á undan sér, og var Guðmundur Friðriks-
son á Ulfagili valinn til fararinnar. Skyldi hann leita til Jónasar
Kristjánssonar læknis, en honum mun ekki hafa verið með öllu
ókunnugt, hvar Jón hafði dvalið né hvað hann ætlaðist fyrir. Þá
var dragferja á Vesturósi Héraðsvatna. Þótti ekki öruggt, að
hún væri öllum tiltæk, og var sá háttur á, að sveifin var bundin
með keðju og henni lokað með lás. Þó skyldi hún héraðslækni
heimil. Hafði hann því lykil að lásnum. Ferjan var geymd aust-
149