Skagfirðingabók - 01.01.1993, Blaðsíða 190
SKAGFIRÐINGABÓK
komnar, mest yfir því, að hann hafði týnt virðingu sinni,
einkum vegna drykkjuskapar.29
Um þetta leyti var Finnur kominn í skuldir við konungssjóð
og var sem sé vikið frá embætti; mun síðasta réttarhald hans á
Sveinsstöðum hafa verið 29- september 1804. Hófust nú vestra
miklar vitnaleiðslur um embættisfærslu hins suspenderaða
sýslumanns. „Urðu syndir Finns hér um 6 bækur pappírs..."
sagði Geir Vídalín í öðru bréfi.30 Vakti málið mikla athygli í
fásinninu í Reykjavík þegar það kom til umfjöllunar í Landsyf-
irréttinum sumarið 1806. Dómur féll þó ekki í bráð. Ebeneser
Þorsteinsson var settur yfir sýsluna og getur Trampe þess í
bréfi til rentukammers 1. september 1805 að hann hafi átt í
miklum erfiðleikum vegna þessa máls og orðið fyrir skömmum
og áreitni hinna drykkfelldu sýslumannshjóna á Sveinsstöðum.
Fjórða júlí hélt hinn setti sýslumaður uppboð á Sveinsstöð-
um á eigum Finns til lúkningar skuldinni við konungsfjár-
hirzlu. Byrjað var á að selja allmargar bækur. Þar var einkum
um að ræða lögbækur og guðsorðarit, þar á meðal Passíusálma,
og keypti Finnur þá sjálfur á 35 skildinga. Nýleg þýðing Jóns
á Bægisá á Tilraun um manninn eftir Pope var hins vegar sleg-
in bónda einum á 13 skildinga. Kvöldvökurnar, fræðsluritið
sem Hannes Finnsson, móðurbróðir Finns, hafði gefið út 1794,
keypti madame Johnsen sjálf á 74 skildinga. Það vekur raunar
athygli að þau hjónin keyptu sjálf allmargt uppboðshlutanna
og greiddu út í hönd. Borðbúnaður þeirra hjóna var sundur-
leitur: Glös af ýmsu tagi, spilkomur, kaffikönnur, kaffikvörn,
silfurskeiðar og hnífar; leirskálar, diskar og tarínur, lóðavigt
o.fl. Þó ber ekki á öðru en höfðingjum þætti til vinnandi að
eignast gripina, þar á meðal Clausen kaupmanni í Olafsvfk, Stef-
29 Geir biskup gódt í vinarbréfum, bls. 42. - Fiður er skringileg fyrning á nafni
Finns. Trampe greifi varð amtmaður í Vesturamti 1804.
30 Sama heimild, bls. 63.
188