Jökull - 01.12.1985, Side 99
Eldgosið á Jan Mayen í janúar 1985
PÁLL IMSLAND
Norrœna eldfjallastöðin, Háskóla íslands, 101 Reykjavík
INNGANGUR
Sunnudaginn 6. janúar 1985 hófst eldgos á Jan
Mayen. Mikil jarðskjálftavirkni fylgdi gosinu og mæld-
ust skjálftar á eynni, í Noregi og á íslandi og e.t.v. á
fleiri stöðum.
Samkvæmt norskum blaðafregnum fundust margir
sterkari skjálftanna á eynni.. Fyrstu skjálftanna í þessari
hrinu varð vart á föstudagskvöldið 4. jan. (Aftenposten
8. jan.). Sunnudagsmorguninn, annars vegar kl. 6 og
hins vegar kl. 7 (Adresseavisen og Arbeiderbladet 7.
jan.), komu stærstu skjálftarnir og voru þeir um 5 stig á
Richter-skala. Við þá vöknuðu menn á eynni. Jarð-
skjálftarnir héldu áfram allan sunnudaginn og voru flest-
ir um 1—2 stig á Richter-skala (Arbeiderbladet 7. jan.).
Samkvæmt Aftenposten (8. jan.) skipti fjöldi þeirra
hundruðum á klukkustund á sunnudeginum, en Aften-
posten og Adresseavisen (8. jan.) segja skjálftum hafi
farið fækkandi mánudaginn 7. jan.
Frásögn dagblaðanna um jarðskjálftana er varla mjög
nákvæm og ekki marktæk til ályktana. í henni er ekki
tiltekið við hvaða tíma er miðað. Samkvæmt langbylgju-
skjálftamælunum á Akureyri og í Reykjavík (upplýs-
ingar frá Ragnari Stefánssyni og Barða Þorkelssyni,
Veðurstofu íslands, 1985) og stuttbylgju-mælinum á
Húsavík (upplýsingar frá Páli Einarssyni, Raunvísinda-
stofnun Háskólans, 1985) var fyrsti stóri skjálftinn á
sunnudagsmorguninn kl. 7:59 GMT og var hann líklega
um 4.7 stig á Richter-skala. Síðan komu sterkir skjálftar
fram á Akureyrarmælinum kl. 8:04, 8:14, 8:39, 8:58,
9:03, 9:18 og 10:24. Þessi síðasttaldi var líklega einnig
um 4.7 stig. Kl. 12:08 kom svo sterkasti skjálfti morg-
unsins, líklega um 4.9 stig. Loks komu tveir allsterkir
skjálftar með stuttu millibili kl. 12:34 og 12:36. Var sá
síðari sterkari, líklega um 4.6 stig. Hinir sterkustu þess-
ara skjálfta komu einnig fram á mælunum í Reykjavík
og á Húsavík. Allir mælarnir þrír skráðu svo sterkasta
skjálftann á svæðinu í þessari hrinu kl. 21:54 á mánu-
dagskvöldið hinn 7. jan. Hann virðist hafa verið um 5.0
stig á Richter-skala.
í frásögn í Arbeiderbladet (7. jan.) segir að reykjar-
slæða og roðabjarmi hafi sést á himni um eftirmiðdaginn
á sunnudaginn (6. jan.). Ætla má að þá fyrst hafi sjálft
eldgosið hafist. Samkvæmt frásögn Aftenposten (8. jan.)
sást úr SAS-flugvél, sem flaug yfir svæðið kl. 7:15 á
mánudagsmorgun (7. jan.), glóð og rennandi hraun.
Fjölmiðlafregnir þessar byggja á upplýsingum frá
jarðskjálftaathugunarstöðvum í Noregi og samtölum við
yfirmann stöðvarinnar á Jan Mayen, Jomar Barlaup.
Mánudaginn 7. jan. flugum við frá Reykjavík og
skoðuðum eldgosið úr lofti. í þeirri ferð tóku þátt fjórir
jarðfræðingar frá Norrænu eldfjallastöðinni, þeir Guð-
mundur E. Sigvaldason, Páll Imsland, Eysteinn
Tryggvason og Karl Grönvold, tveir blaðamenn frá
Morgunblaðinu, Hallur Hallsson og Ragnar Axelsson,
og flugmaðurinn Árni Ingvarsson. Flogið var á tveggja
hreyfla, 9 sæta Cessna flugvél frá Leiguflugi Sverris
Þóroddssonar. Farið var frá Reykjavík rétt fyrir ki. 11
að morgni og lent á Raufarhöfn til þess að fylla bensín-
tanka. Þaðan fórum við kl. 12:26 og vorum komnir
norður undir Jan Mayen kl. 14:20. Við flugum yfir
gosstöðvunum í um það bil 40 mínútur. Við lentum á
Akureyri á bakaleiðinni til bensíntöku kl. 17:06 og loks í
Reykjavík aftur kl. 18:20.
Eldgosið var á norðausturhorni eyjunnar og því í
skugganum af Beerenberg, þar sem sól var rétt neðan
við sjóndeildarhring. Það var því skuggsýnt og erfitt að
greina smáatriði. Birtan var minni en svo að hægt væri
að taka nothæfar ljósmyndir með algengustu filmum.
Notast mátti við 800 ASA filmur og ljósnæmari. Frekar
lítið gagn var því af ljósmyndun nema til yfirlits, hætt
var við kvikmyndun á staðnum og video-upptökur
reyndust ekki vera mjög góðar.
JAN MAYEN
Jan Mayen er eldfjallaey, um 380 km2 og 54 km löng,
á 71°N og 8—9°W (1. mynd). Hún er eingöngu gerð úr
gosbergi, sem er yngra en 0.7 millj. ára. Eldvirknin er
hæg og afkastalítil. Um 100 ár virðast líða að jafnaði á
milli gosa og er meðaltalsgosið um 0.07 km3 (sjá Ims-
land, 1978). Langflest gosin hafa myndað hraun og
JÖKULL 35. ÁR 97