Jökull - 01.12.1985, Blaðsíða 133
Langjökulsferð 1979
HARALDUR MATTHÍASSON
Leiðangur mikill var gerður á Langjökul á páskum
1979. Hópur manna úr Jöklarannsóknafélaginu fór þá
með hús er smíðað hafði verið í Garðabæ. Skyldi það nú
flutt inn á Langjökul og komið fyrir við Fjallkirkjuna í
austurbrún jökulsins. Okkur Kristínu konu minni var
gefinn kostur á þátttöku, og tókum við því fegins hendi.
Rækileg könnun sem gerð hafði verið á leiðum, leiddi í
Ijós að heppilegast þótti að leggja upp úr Gjábakka-
hrauni nokkuð fyrir utan Tintron. Þangað var komið
snemma skírdagsmorguns. Var þar flutningalest all-
mikil. Fyrst er að nefna húsið sjálft, einnig þrjá snjóbíla
auk annars nauðsynlegs farangurs, og var það allt flutt á
stórum vörubílum. Þar voru einnig í för vélsleðar marg-
ir, sumir frá leiðangursmönnum, en einnig voru þar
aðrir í ferð sem ætluðu að vera leiðangrinum áhangandi.
Húsið var sett á mikinn sleða, og drógu hann snjóbílar,
stundum einn, oftast tveir, en þrír þegar mest lá við.
Rokhvasst var um morguninn, en lygndi um hríð er leið
að dagmálum. Leiðangursmenn voru sumir inni í snjó-
bílunum, en aðrir inni í húsinu sjálfu, sem stóð fullgert á
sleðanum mikla. Það hafði verið smíðað um veturinn af
mörgum duglegum sjálfboðaliðum, konum og körlum.
1. mynd. Kirkjuból sett á dráttarbíl frá G.G. á hlaðinu
hjá Jóni ísdal í Garðabæ 11. apríl 1979. Ljósm. Pétur
Þorleifsson.
2. mynd. Á fullri ferð norður Langjökul 13. apríl 1979.
Ljósm. Pétur Þorleifsson.
Eins og nærri má geta, var ekki unnt að fara hart með
slíkan þungaflutning sem hér var á ferð. Leið var í fyrstu
allmjög upp í móti, og þótt snjór væri mikill, stóðu
hraunrimar sumstaðar upp úr, og varð því að leita leiða.
Voru vélsleðar á sveimi fram og aftur að finna bestu
leið. Lognið stóð ekki lengi. Hvessa tók er á daginn
leið, og nær kveldi skall á austanbylur og brátt tók að
skyggja, og um kveldið var komið ofsarok, með mold-
byl, sem fór sífellt versnandi.
Haldið var áfram meðan nokkur kostur var, en svo
kom að ekkert sást. Settu nú sumir upp tjöld í illviðrinu,
en aðrir bjuggust að gista í snjóbílnum eða inni í húsi.
Stúlkurnar er sjá skyldu um matreiðslu, hófu starf sitt
og settu upp potta stóra til kvöldmatar. Allt virtist vera
að færast til kveldkyrrðar. En brátt tók húsið kipp, og
allt lék á reiðiskjálfi. Var farið að grennslast eftir hvað
um væri að vera, en aðeins fékkst þetta stutta svar: „Nú
er ferðatími". Og þar við sat. Tjöldin voru rifin upp og
haldið af stað. Var ærinn vandi að gæta matarpottanna á
eldavélunum. Urðu stúlkurnar að liggja á hlemmunum,
en dugði naumast þó. Líklega hefur eitthvað rofað til í
bili, en það stóð ekki lengi; bylsortinn var svo mikill, að
ekki var komist lengra en náttmyrkur gerði sitt. Varð nú
að taka náttstað, enda áliðið kvelds. Seinna fréttum við
JÖKULL 35. ÁR 131