Jökull - 01.12.1985, Side 136
Ferðasaga Kyndils á Langjökul
Það var haustið 1979, þegar vetrarstarf Björgunar-
sveitarinnar Kyndils í Mosfellssveit hófst, að félagar
sveitarinnar fóru að tala um sleðaferð á Langjökul og
Hveravelli. Nokkrir úr sveitinni höfðu farið á jökulinn
veturinn áður, í eins dags ferð í fallegu veðri, og þótti
mikið til koma. Eftir áramótin var svo ákveðið að fara
og varð 9. febrúar fyrir valinu. Rann sá dagur upp með
roki og rigningu.
Við vorum búnir að hafa samband við Veðurstofuna,
svo þeir gætu notað ferðina, og tókum við póst og annað
lítilræði til Hveravalla. Veðurstofumenn sögðust ekki
geta lofað okkur góðu veðri, enda rann laugardagurinn
upp, eins og fyrr segir, með roki og rigningu.
Fararstjóri var Erlingur Ólafsson, sá sem þetta skrif-
ar. Klukkan 7 um morguninn var haldið af stað austur
Mosfellsheiði að Þingvöllum. Þar var veður svo slæmt
að varla var stætt fyrir slagviðri. Ákveðið hafði verið að
leggja af stað frá Meyjarsæti. Ekki vildum við gefast
upp við svo búið og var ákveðið að fara austur að
Gullfossi og athuga, hvort veður væri skárra þar austur
frá. Þegar við komum austur í Grímsnes var vegurinn
orðinn þurr og vindur óverulegur. Var haldið inn að
Sandá, en lengra varð ekki komist á bíl, og tókum við
þar af. Snjór var frekar lítill þarna. Þeir sem voru að
leggja upp í þessa ferð voru, auk fararstjóra:
Albert Finnbogason
Finnbogi Albertsson
Sigurður Sigfreðsson
Guðjón Haraldsson
Georg Magnússon
Jón Þ. Jónsson
Þorsteinn Theodórsson
Guðmundur I. Hjálmtýsson
Grétar Hansson
Magnús Helgason
Ragnar Bjarnason,
12 talsins á jafnmörgum sleðum. Ferðin gekk frekar
seint til að byrja með, vegna snjóleysis. Töfðum við
lítillega við Grjótá, þar sem hún var opin og skarir á
henni. Þegar komið var upp á Bláfellsháls var færi orðið
gott og veður ágætt, frost en sólarlaust og logn. Var nú
ekkert sem tafði för okkar og brunuðum við nú niður í
Skálpanes og yfir brúna á Hvítá. í Miðnesi stönsuðum
við smástund og héldum síðan að skála F.í. í Hvítárnesi
og borðuðum þar. Um eitt leytið var haldið af stað til
Hveravalla. Við höfðum haft samband við Hveravelli í
gegnum talstöð annað slagið og biðu þau Guðmundur
og Bergrún með óþreyju komu okkar. Farið var gömlu
leiðina fyrir austan Fúlukvísl, austur fyrir Kjalfell að
Beinahól, vestan við Rjúpnafell og síðan beint að
Hveravöllum.
Þangað komum við um kl. 3.30. Móttökur voru ekki
af verri endanum. Þegar við komum beið okkar kaffi og
meðlæti. Eftir að hafa gert kaffi og brauði góð skil, með
spjalli við Guðmund og Bergrúnu, fórum við í skála F.í.
var hann heitur og notalegur og ekki var laugin síðri.
Morguninn eftir var veður hið besta, sólskin og tveggja
stiga frost, eins gott sleðaveður og hugsast gat. Lang-
jökull skartaði sínu fegursta og voru menn nú fljótir að
búa sig af stað. Kvöddum við nú heimilisfólkið á Hvera-
völlum og héldum af stað í átt að Langjökli. Fórum við
fyrir sunnan Dauðsmannsgil í Hundadali og beint á
jökulinn.
Færið á jöklinum var eins gott og best varð á kosið.
Héldum við nú upp fyrir Jökulkrók, síðan niður á
sléttuna sem er vestan við Sandfell og Þjófadali, þaðan
upp og vestur fyrir Fjallkirkju, niður og austur með
henni að skála Jöklarannsóknafélagsins, sem nefndur
hefur verið Kirkjuból. Útsýnið þaðan er afskaplega
fallegt og ekki síst í svona fallegu veðri eins og þarna
var. Húsið var eins og ísmoli á að líta og sást hvergi í
það. Brutum við frá hurðinni og kom þá í ljós, að innri
hurðin var opin og forstofan hálf af snjó. Hreinsuðum
við snjóinn úr húsinu og gengum frá því.
Frá Fjallkirkju héldum við að Péturshorni og síðan að
Þursaborg, sem er einhver sá fallegasti staður sem við
höfðum komið á, og var erfitt að slíta sig frá þeim stað.
Ekki máttum við dvelja þar of lengi, þar sem dagurinn
er stuttur á þessum árstíma.
Frá Þursaborg var haldið að Jarlhettum. Þræddum við
í gegnum ótal gil og dali, en svæðið í kringum Jarlhettur
er mjög skemmtilegt. Þá fórum við niður að Sandvatni
og þræddum skafla niður að brúnni á Sandá, því snjó-
lítið var þegar þangað var komið. Og lauk þar með
velheppnaðri ferð.
Erlingur Ólafsson
134 JÖKULL 35. ÁR