Tímarit UNIFEM - 01.01.2004, Síða 5
Merkilegt að þurfa að réttlæta að gaumur sé
gefinn að þörfum og skoðunum kvenna og
stúlkna í alþjóðlegu mannúðar- og þróunar-
starfi. Þó er vitað að slíkt starf hefur löngum mótast af ríkjandi karllægum viðhorf-
um. Fyrir vikið hafa þróunarverkefni og stefnumótun gjarnan viðhaldið ójafnrétti
milli kynjanna og á tíðum mismunað konum og stúlkum með margvíslegum
afleiðingum. Á síðustu árum hefur jafnréttishugtakinu þó vaxið fiskur um hrygg
og nú er svo komið að almenn sátt ríkir innan stofnana Sameinuðu þjóðanna og
meðal aðildarríkjanna um að samþætta þurfi kynjasjónarmið í stefnu og störfum,
í hverju ríki sem og á alþjóðlegum vettvangi. Þar fer Þróunarsjóður Sameinuðu
þjóðanna í þágu kvenna, UNIFEM, fremstur í flokki. Hlutverk UNIFEM er
að sjá til þess að jafnréttissjónarmið skili sér í orði og í verki til að bæta lífskjör
kvenna og stúlkna, sem og karla og drengja, um allan heim.
Í ár er UNIFEM á Íslandi fimmtán ára og í tilefni afmælisins er við hæfi að
staldra við og spyrja: Hver er þessi UNIFEM? Hvar hefur hún alið manninn og
hvert stefnir hún í framtíðinni? Hverjar eru skoðanir hennar og áhugasvið? Tíma-
ritið í ár er umfangsmikið enda af mörgu að taka. Eftir ávörp formanns, forsætis-
ráðherra og aðalframkvæmdarstýru UNIFEM eru rifjuð upp fyrstu starfsár lands-
félagsins og rakin tildrög að stofnun þess. Þá eru reifuð störf á liðnu ári og helstu
mál á dagskrá og rætt við félaga og nýráðna framkvæmdastýru.
Þegar við höfum fengið innsýn í vöxt og viðfangsefni á Íslandi gerum við
víðreist og rýnum í þrjú helstu áhersluatriði UNIFEM á alþjóðavísu. Umfjöllun
um efnahagslegt öryggi og réttindi kvenna skýrir áhrif hnattvæðingar á konur, líf
og hagi farandverkakvenna, landréttindi og nýjungar í hagstjórn og fjárlagagerð.
Innanlandsátök og ofbeldi gegn óbreyttum borgurum, sem þeim fylgir, hefur
aukist verulega síðustu áratugi. Samfara því hefur alþjóðleg samvinna tekið breyt-
ingum. Í kaflanum um konur, stríð og frið er að finna áhugaverða umfjöllun um
konur sem fórnarlömb átaka og þátttakendur í friðarumleitunum og uppbygg-
ingarstarfi eftir stríð. Íslenskur sérfræðingur hjá UNIFEM í Kósóvó fjallar um
stöðu mála í héraðinu þar sem hún segir allt vera pólitískt. Í nýlegri rannsókn er
leitað svara við því hvort íslenska friðargæslan geti státað af samþættingu jafnréttis-
sjónarmiða í störfum sínum.
Tíðni ofbeldis gegn konum er svipuð sama hvert litið er, þótt birtingarmynd
þess sé ólík eftir stað og stund. Í rúmlega 20 ár hefur afnám ofbeldis og réttur
kvenna til að njóta mannréttinda verið eitt af helstu baráttumálum UNIFEM og
fjölmargra stofnana og samtaka um heim allan. Um þetta er fjallað í einni grein af
fjórum í greinaflokki þar sem sagt er frá starfi íslenskrar konu með alnæmissmituð-
um stúlkum í Úganda, fjallað um tengsl ofbeldis og alnæmis og áhrif faraldsins á
konur og stúlkur, og rétt stúlkna til menntunar.
Mig rámar í að rithöfundurinn og heimspekingurinn Gunnar Dahl hafi eitt sinn
sagt Íslendinga vera minnstu stórþjóð í heimi – eða var það stærsta smáþjóðin?
Allténd vísaði hann þar til þeirrar tilhneigingar að líta á okkur sem jafningja
stórþjóða. Smæðin setur vissulega mark sitt á framlag okkar og verkefnaval í
þróunarsamvinnu og þátttöku í samfélagi þjóðanna. Þó fer hlutur okkar á þessum
vettvangi vaxandi, enda þjóðin stórhuga, og við höfum töluvert fram að færa á
vettvangi þróunar- og jafnréttismála. Greinaflokk um Ísland, alþjóðlega þróunar-
samvinnu, friðargæslu og jafnréttismál er að finna í síðasta kafla blaðsins.
Fyrir hönd ritnefndarinnar og UNIFEM á Íslandi langar mig að lokum að
þakka öllum þeim sem komu að gerð blaðsins og styrktu útgáfu þess. Sérstakar
þakkir fá útgáfufélagið Hænir, Sóley Stefánsdóttir hönnuður, greinahöfundar og
ljósmyndarar fyrir óeigingjarnt starf.
Hver er
þessi UNIFEM?
Njótið vel,
Hrund Gunnsteinsdóttir
Útgefandi: UNIFEM á Íslandi
Þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna
í þágu kvenna
Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík
Sími: 552 6200, Fax: 562 6010
Netfang: unifem@unifem.is
Veffang: www.unifem.is
Ábyrgðarmaður: Rósa Erlingsdóttir
Ritstjóri: Hrund Gunnsteinsdóttir
Ritnefnd: Ásta María Sverrisdóttir, Jónína
Helga Þórólfsdóttir, Hólmfríður Anna
Baldursdóttir og Hrund Gunnsteinsdóttir
Prófarkalestur: Ásdís Káradóttir
Aðstoð við útgáfu: Hænir sf.
Sími: 588 8100
Netfang: utgafa@haenir.is
Ljósmyndir: ýmsir, sjá merkingar á myndum
Hönnun: Sóley Stefánsdóttir, soley@mi.is
Prentun: Gutenberg
Ljósmyndir úr myndabanka UNICEF (ofan frá): UNICEF/ HQ98-0502/Giacomo Pirozzi, UNICEF/ HQ97-0337/Shehzad Noorani, UNICEF/ HQ99-0651/Giacomo PIROZZI