Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Síða 29
29
Ávarp innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar
„En nú þykir mér það ráð, að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og
miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög
og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“
Svo mælti Þorgeir Ljósvetningagoði fyrir þúsund árum. Og þjóðin er enn á þessu máli. Því
hér er ekki fjallað um trú heldur sið. Við fylgjum kristnum sið og síðan geta menn efast
um trúarhita okkar hvers og eins og staðfestu. Kannski erum við sum heit í trúnni þegar
við lendum í hafvillum og kólnum svo aftur þegar sér til lands, einsog Jón Helgason ýjaði
að.
Ef skip mitt í villum um höfin hrekst
og himintunglanna leiðsögn bregzt,
en sjórinn þýtur með þungum niði,
þín ég leita drottinn.
En þegar hafrænan ljær með lið
og landið rís yfir hafsins svið,
svo þekkja má hinar þráðu hafnir,
þér ég neita drottinn.
Kristni er trú en kirkjan er siður. Um það var deilt á Alþingi árið þúsund hvort hafa ætti
heiðinn sið á Íslandi eða kristinn sið. Þorgeir taldi kristnina á sigurbraut og andóf væri
vonlítið. Því skyldi kristni í lög tekin. Síðan var mönnum frjálst hvort þeir vildu trúa á
hinn hvíta Krist eða hinn almáttuga Ás, allt eftir sannfæringu sinni. Þessi regla hefur gilt
síðan. Og þjóðin var spurð um þetta aftur nú þúsund árum seinna. Það er góð regla að taka
málið upp á þúsund ára fresti. Það er eins nálægt dagatali eilífðarinnar og við dauðlegir
menn getum skilið.
Og þjóðin svaraði og komst að sömu niðurstöðu og Þorgeir. Við skyldum hafa kristinn sið.
Snorri segir svo frá í Heimskringlu að skömmu eftir kristnitöku hafi Sighvatur skáld
þá nýkominn frá Íslandi átt orðastað við Ólaf konung Haraldsson, sem við Íslendingar
kölluðum jafnan Ólaf digra.
„Ólafur konungur spurði eftir vendilega hvernig kristinn dómur væri haldinn á Íslandi. Þá
þótti honum mikilla muna ávant að vel væri því að þeir sögðu frá kristnihaldinu að það
var lofað í lögum að eta hross og bera út börn sem heiðnir menn og enn fleiri hlutir þeir er
kristnispell var í.“
Enn er misjafnt hvernig okkur ferst kristnihaldið og er þá átt við siðinn sjálfan. Deilt er
um mannanna verk og mun svo verða áfram. En Þjóðin var spurð um sið og svarið var
afgerandi. Þess vegna verður kirkjan enn um sinn eign þjóðarinnar. Og þjónar kirkjunnar
því þjónar okkar allra og þjóðin og kirkjan munu fylgjast að í blíðu og stríðu og verða ekki
aðskilin. Kirkjan verður að umbera þjóðina og þjóðin verður að umbera kirkjuna, ekki