Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Page 59
59
forgangsraða og tímasetja aðgerðir til að framfylgja stefnunni. Liður í slíkri stefnumótun
sé að meta hvort kirkjan á að sinna öllum þeim verkefnum sem nú er sinnt á Biskupsstofu.
Kirkjuráð taldi eðlilegt að nýkjörinn biskup leiddi framangreinda stefnumótun og er sú
vinna hafin.
3. Skipta ætti upp núverandi verkefnum Biskupsstofu
Skipta ætti upp verkefnum sem nú eru unnin á Biskupsstofu í trúarleg verkefni og veraldleg
verkefni. Verkefnin ættu að falla undir tvær stjórnunarlega aðskildar skipulagseiningar
sem hvor hefði sinn yfirmann. Móta þyrfti skipurit og skriflegar starfsreglur fyrir báðar
einingarnar.
Kirkjuráð telur eðlilegt að þessi tilmæli verði athuguð nánar um leið og unnið er að
heildarstefnumótun um málefni Biskupsstofu, sbr. hér að ofan. Eins og áður hefur komið
fram hefur verið unnið að gerð nýs skipurits fyrir Biskupsstofu.
4. Auka þarf gagnsæi í fjármálum þjóðkirkjunnar
Ríkisendurskoðun bendir á að fjármál þjóðkirkjunnar verði að vera gagnsærri en nú er.
a) Þannig sé t.d. æskilegt að helstu sjóðir kirkjunnar, þ.e. Kirkjumálasjóður, Kristnisjóður,
Jöfnunarsjóður sókna og Hinn almenni kirkjusjóður verði sameinaðir í einn Kirkjusjóð.
(Sjá umfjöllun um málið fyrr í skýrslunni).
b) Að auki þarf að vinna skýrar verklagsreglur um styrkveitingar á vegum kirkjunnar, þar
sem m.a. komi fram með hvaða hætti umsóknir eru metnar og hvernig eftirfylgni með
nýtingu fjárins sé háttað.
Kirkjuráð samþykkti að óska eftir að fjármálastjóri og framkvæmdastjóri vinni að tillögum
að verklagsreglum samkvæmt framanskráðu. Málið er í vinnslu.
5. Sameina verður sóknir
Sóknir á Íslandi eru margar og algengt að þær séu fámennar.
a) Ríkisendurskoðun telur að stefna eigi að sameiningu fámennra og illa starfhæfra sókna
í stað þess að leggja einungis áherslu á að efla samvinnu milli þeirra. Stofnunin telur
því að nauðsynlegt sé að sett verði skilyrði um lágmarksfjölda sóknarbarna í hverri
sókn.
b) Færa ber frumkvæði að sameiningu sókna frá biskupafundi til kirkjuþings.
Kirkjuráð leggur áherslu á að frumkvæði komi frá heimamönnum og nú sem endranær
verði haft fullt samráð við heimamenn um þessi mál.
Kirkjuráð samþykkti að óska eftir að biskupafundur ræði málið og kanni hvort rétt
geti verið að biðja prófasta að fjalla um endurskoðun sóknarskipunar á héraðsfundum
eða öðrum vettvangi. Þá gaf kirkjuráð út bækling um sameiningu sókna eins og fyrr er
getið.
6. Umsýsla og eignarhald prestssetra verði hjá sóknum
Ríkisendurskoðun telur að eignarhald og viðhald prestssetra eigi að vera hjá sóknum,
að undanskildum prestssetursjörðum. Sóknirnar eru grunneiningar kirkjunnar og það
er þeirra að ákvarða um heimilisfesti sóknarpresta í samráði við þá og hvernig að þeim
skuli búið. Þessari breytingu þyrfti að fylgja fjármagn til sóknanna frá Kirkjumálasjóði.