Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Qupperneq 92
92 93
Verksvið nefndarinnar
Verksvið nefndarinnar var að skoða framtíðarskipan sókna, prestakalla og prófastsdæma
á svæði Reykjavíkurprófastsdæma vestra og eystra og Kjalarnessprófastsdæmis. Nefndin
taldi það ekki hlutverk sitt að endurskoða sóknarmörk einstakra sókna.
Tillögur nefndarinnar
a. Sóknir
Nefndin leggur ekki til breytingar á skipan sókna á svæðinu, með undantekningum þó.
Aftur á móti leggur hún til að samstarf sókna verði stóreflt.
Nefndin minnir á eftirfarandi:
Kirkjusóknin er grunneining þjónustu kirkjunnar. Í hverri sókn er veitt þjónusta í helgihaldi,
kærleiksþjónustu og trúfræðslu. Sú þjónusta stendur öllum til boða, sbr. Samþykktir um
innri málefni þjóðkirkjunnar. Í þjónustu kirkjunnar er lögð áhersla á nærsamfélagið, - virka
þátttöku í safnaðarstarfi og sjálfboðaliðastarfi. Sérstaklega er mikilvægt að skipuleggja
þjónustu við börn og aldraða þannig að hún sé sem aðgengilegust. Störf sjálfboðaliða á
borð við messuþjóna, kóra og aðstoð við fræðslu er best að efla í nærsamfélaginu þar
sem fólk tengist kirkju sinni oft sterkum böndum. Þegar starfseining er lítil, nálægð mikil
og persónuleg tengsl til staðar er auðveldara að virkja fólk til þátttöku. Það eykur líkur á
að fólk sé tilbúið til að gefa af tíma sínum og kröftum í þágu safnaðarstarfs sem er ein af
forsendum bættrar þjónustu. Nefndin telur að markmið safnaðarstarfsins sé að kalla sem
flesta til þátttöku og ábyrgðar og að ofangreind atriði mæli gegn sameiningu þeirra sókna
sem telja má sjálfbærar.
Nefndin álítur að sameining sókna á svæðinu sé almennt ekki fýsileg við núverandi
aðstæður. Til viðbótar framangreindum ástæðum vekur nefndin athygli á afar mismunandi
fjárhagsstöðu sóknanna. Vandséð er að sæmilega stæðar sóknir séu reiðubúnar að sameinast
skuldsettum sóknum. Samtals nema skuldir allra 36 sóknanna í prófastdæmunum þremur,
sem um ræðir, rétt yfir þremur milljörðum króna. Fáeinar sóknir eru skuldlausar. Í þremur
skuldugustu sóknunum nema skuldirnar um 297, 480 og 623 milljónum, sem er nærri
helmingur heildarskulda sókna á svæðinu. Sumar sóknir eru varla sjálfbærar lengur þar
sem sóknargjöld standa ekki undir hefðbundnum rekstri og aðrar eru mjög skuldsettar
vegna byggingaframkvæmda.
Nefndin telur brýnt að leitað verði heildarlausna varðandi fjárhag sókna enda er
slíkt forsenda frekari breytinga á skipan sókna. Slíkar tillögur eru þó ekki á verksviði
nefndarinnar.
Undantekningar frá ofangreindri niðurstöðu þ.e. að sóknir haldist óbreyttar, er annars vegar
staða Kirkjuvogssóknar í Kjalarnessprófastsdæmi, sem nefndin leggur til að verði sameinuð
annarri sókn, og hins vegar Fella- og Hólabrekkusóknir í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra
sem nefndin leggur til að verði sameinaðar.
Enda þótt ekki séu lagðar til frekari sameiningar sókna, er niðurstaða nefndarinnar sú, að
augljós ávinningur felist í aukinni samvinnu sókna. Má í því sambandi nefna samnýtingu
starfsfólks t.d. organista og æskulýðsfulltrúa. Þá gætu svokölluð sóknasamlög verið
hjálpleg til að standa straum af kostnaði við samnýtta þjónustu.