Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Page 14
14 15
Að öðrum kosti verði þess gætt að ákvörðun um afnám þjóðkirkju úr stjórnarskrá verði
tekin á þann veg sem núgildandi stjórnarskrá býður svo að þjóðin sjálf fái notið þess réttar
að greiða sérstaklega atkvæði um slíka ákvörðun.
Þessi ályktun kirkjuþings í fyrra er enn í fullu gildi, en við erum komin saman til að ræða
þetta mál sérstaklega m.a. í tilefni af væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Kirkjuráð leggur hér fram tillögu til þingsályktunar fyrir þingið til umræðu og afgreiðslu.
Annað mál þessa aukakirkjuþings er „Tillaga til þingsályktunar um sóknargjöld“.
Innanríkisráðherra skipaði árið 2011 starfshóp til að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga
á starfsemi þjóðkirkjunnar og afleiðingar þess ef haldið yrði áfram á þeirri braut, eftir að
biskup Íslands hafði lýst áhyggjum sínum af fjárhagsstöðu safnaða þjóðkirkjunnar vegna
skerðingar á sóknargjöldum.
Áfangaskýrsla starfshópsins var gefin út í nóvembermánuði 2011 og var hún kynnt
kirkjuþingi sem ályktaði um málið með því að skora á ríkisstjórn og Alþingi að beita sér
fyrir því að sóknargjöldin verði leiðrétt til samræmis við þróun fjárveitinga til stofnana
innanríkisráðuneytisins þannig að sóknargjöldin yrðu 919 kr. á mánuði fyrir hvern
gjaldanda á árinu 2012.
Sá niðurskurður sem sóknir og yfirstjórn kirkjunnar hafa þurft að glíma við frá
efnahagshruni til að mæta tekjumissi og þeirri alvarlegu fjárhagsstöðu sem margar sóknir
glíma nú við er víða að sliga starfsemi þeirra. Í lokaskýrslu starfshópsins til ráðherra 30. apríl
2012, segir meðal annars að í ákvæði frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum
um upphæð sóknargjalds, hafi þess ekki verið gætt að nú þurfi að verðbæta sóknargjaldið
til að gætt sé jafnræðis við aðra aðila sem byggja rekstur sinn á framlögum fjárlaga. Vegna
þess hafa sóknargjöld sem ríkið greiðir til sókna þjóðkirkjunnar og til annarra trúfélaga
lækkað um nálægt 25% umfram fjárveitingar til reksturs annarra aðila sem sætt hafa
skerðingu til samræmis við almennan niðurskurð frá fjárlögum ársins 2008. Hér hafa því
trúfélög, söfnuðir og sameiginlegir sjóðir kirkjunnar verið að taka á sig skerðingu langt
umfram aðrar stofnanir sem heyra til innanríkisráðuneytisins.
Samkvæmt gögnum frá Ríkisendurskoðun 2010 voru tæplega 100 sóknir sem ekki náðu
endum saman í rekstri sínum á síðasta ári og hafði fjölgað um liðlega 67% miðað við árið
2008. Það er því ljóst að með sama áframhaldi mun þjóðkirkjunni á allra næstu árum
verða nauðugur sá kostur að leggja niður mikilvægan hluta af kjarnastarfsemi sinni til að
forða því að kerfið í heild komist í þrot.
„Óhætt er að draga þá ályktun að grunnstoðir í starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar séu að
hruni komnar“ eins og segir í skýrslu til ráðherra.
Sóknargjaldið í dag er 701 kr. en tillaga starfshóps innanríkisráðherra er að hækka það á
næsta ári upp í 852 kr.
Það er forvitnisefni að vita hvað standi í fjárlagafrumvarpinu sem verður lagt fram á
Alþingi á setningardegi þess 11. sept. nk.