Morgunblaðið - 23.01.2016, Side 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. JANÚAR 2016
ÚR BÆJARLÍFINU
Karl Ásgeir Sigurgeirsson
Hvammstangi
Nú er þorrinn að ganga í garð.
Hér í Húnaþingi hefur veturinn
verið snjóléttur enn sem komið er,
þó talsvert frost á köflum og veru-
leg hálka á vegum. Allt of mörg
umferðarhöpp verða á hringvegi 1,
miðað við að vegur hér í gegn er
alls ekki erfiður, fyrir utan Holta-
vörðuheiði, en þar virðast að-
stæður koma mörgum í opna
skjöldu. Björgunarsveitin Húnar
er margoft kölluð til, svo og
starfsfólk heilsugæslunnar hér á
Hvammstanga.
Hlutafélagið Langafit ehf
stefnir að opnun Hótels Laug-
arbakka nú í byrjun maí. Hjónin
Hildur Ýr Arnarsdóttir og Örn
Arnarson sýndu fréttaritara fram-
kvæmdirnar, sem nú er unnið að í
fyrrverandi Laugarbakkaskóla í
Miðfirði. Gert er ráð fyrir 56 her-
bergjum, öllum með baði, þar af
nokkrar svítur og fjölskyldu-
herbergi. Má segja að öllu innan-
húss sé breytt, nema eldhúsi og
heimilisfræðastofu, sem verður
rými til námskeiðahalds og afþrey-
ingar fyrir gesti. Íþróttahús skól-
ans verður nýtt sem slíkt, fyrir
hótelgesti, og einnig sem ráð-
stefnu- og fundarsalur. Utan húss
verður gert afþreyingarsvæði, m.a
með heitum pottum.
Hugmyndir eigenda eru, að
undirstrika staðsetningu hótelsins
í heimabyggð Grettis sterka Ás-
mundarsonar og m.a. að bjóða upp
á afþreyingu tengda sögunni. Allir
iðnaðarmenn, sem koma að breyt-
ingu og uppbyggingu hótelsins,
koma úr heimahéraði og er það
mikill fjöldi fagmanna. Eigendur
eru afar ánægðir með viðtökur
samfélagsins og vænta góðs sam-
starfs í framtíðinni. Ljóst er að
starfsemi hótels Laugarbakka get-
ur orðið héraðinu mikil lyftistöng í
atvinnumálum.
Nýr framkvæmdastjóri hefur
verið ráðinn til Samtaka sveitarfé-
laga á Norðurlandi vestra – SSNV.
Það er Björn Líndal Traustason,
heimamaður, sem aflað hefur sér
háskólamenntunar á Bifröst og í
Reykjavík. Björn býr með fjöl-
skyldu sinni á Hvammstanga og
þekkir vel sitt starfsumdæmi.
Bundnar eru miklar væntingar við
ráðningu hans.
Tvær bókhaldsstofur, For-
svar ehf og Virkar ehf, samein-
uðust nú um áramótin undir heit-
inu Hagsæld ehf. Hyggst hin nýja
stofa veita héraðsbúum og öðrum
viðskiptavinum góða og trausta
þjónustu.
Stofan hefur einnig umboð fyr-
ir Sjóvá, svo og allan búnað til víð-
tækrar tölvuþjónustu s.s. fjar-
vinnslu.
Mikið er um að vera í tónlistar-
lífi héraðsins. Má nefna að Grunn-
skólanemendur héldu árlega
Söngvarakeppni um s.l. helgi við
húsfylli í Félagsheimili Hvamms-
tanga. Hljómsveit skipuð tveim
reynsluboltum og þrem ungum
fyrrverandi nemendum skólans lék
undir fyrir keppendur. Sigurvegari
í eldri flokki var Rannveig Erla
Magnúsdóttir en í yngri flokki Ás-
dís Aþena Magnúsdóttir.
Ungmennafélagið Grettir í
Miðfirði stendur fyrir æfingum á
rokkóperunni Jesu Krist Superst-
ar, sem frumsýna á í Félagsheim-
ili Hvammstanga um páska, undir
leikstjórn Sigurðar Líndal. Öll
tónlistin er í höndum heima-
manna, Daníel Geir Sigurðsson er
tónlistarstjóri og Ingibjörg Jóns-
dóttir heldur utan um skipulag
sýningarinnar. Alls munu tuttugu
og fimm manns taka þátt í sýning-
unni en að auki verða tíu manns
baksviðs.
Íþróttamaður ársins 2015 var
kynntur um áramótin. Í fyrsta
sæti var Ísólfur Líndal Þórisson
fyrir hestamennsku, í öðru sæti
var Dagbjört Dögg Karlsdóttir og
í því þriðja Ragna Salbjörg Sæv-
arsdóttir, þær báðar fyrir körfu-
boltaiðkun. Mikil íþróttaiðkun er í
héraðinu og hin ýmsu lið að
keppa, bæði heima og að heim.
Sitthvað fleira er að gerast,
og víðs fjarri að allt sé upptalið.
Vestur-Húnvetningar buðu ná-
grönnum sínum úr austursýslunni
í Lomberkvöld s.l. föstudag, en í
báðum sýslum eru starfandi Lom-
berklúbbar. Spilað var á veitinga-
húsinu Sjávarborg, alls um 50
spilarar, sem skemmtu sér fram á
nótt við spil og góðar veitingar.
Svo er tími þorrablóta að renna
upp, fyrsta blót í héraðinu er hjá
Félagi eldri borgara nú á laug-
ardag, og síðan sigla fjögur til
fimm í kjölfarið, út allan þorra.
Morgunblaðið/Karl Ásgeir Sigurgeirsson
Opna í vor Hildur Ýr Arnarsdóttir og Örn Arnarson við Hótel Laugarbakka.
Stefnt að opnun Hótels
Laugarbakka í vor
Þórunn Kristjánsdóttir
thorunn@mbl.is
„Ég hef ákveðið að svara ákallinu um
samráð við sveitarstjórn og íbúa um
útfærslu á þjónustu heilsugæslunn-
ar,“ segir Herdís Gunnarsdóttir, for-
stjóri Heilbrigðisstofnunar Suður-
lands.
Mikil óánægja hefur verið á meðal
íbúa Rangárþings eystra með þá
ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suð-
urlands að hafa heilsugæslustöðina á
Hvolsvelli aðeins opna í þrjá daga í
viku en vísa íbúunum á stöðina á
Hellu þess á milli. Þetta er tíma-
bundin tilraun sem átti að standa til
vors.
Mikil óánægja á íbúafundi
Íbúar létu óánægju sína í ljós á
fjölmennum íbúafundi 11. janúar sl.
á Hvolsvelli, að Herdísi viðstaddri.
Hún segir að á íbúafundinum hafi
ótti og kvíði íbúanna vegna af-
greiðslutímans, sem hún hafi hlustað
á, komið berlega í ljós. Hún segir
ennfremur mikilvægt að eining og
sátt ríki um þjónustuna. Að því
sögðu verður tilraun með takmark-
aðan afgreiðslutíma heilsugæslu-
stöðvarinnar á Hvolsvelli endur-
skoðuð og niðurstaða ætti að liggja
fyrir fyrir 1. febrúar nk.
Fyrri samráðsfundur af tveimur
milli Heilbrigðisstofnunar Suður-
lands og sveitarstjórna í Rangár-
vallasýslu var haldinn í vikunni.
Markmið samráðsfundanna er að
skoða hvernig fjármunir í heilbrigð-
isþjónustunni í Rangárþingi séu
nýttir sem best í þjónustu við íbúa.
„Við ætlum að leggja spilin á borðið
fyrir sveitarstjórnina. Hvernig
skipulagið er, hvernig við getum haft
það og taka sameiginlega ákvörðun
þannig að öllum séu ljósir kostir og
gallar við ólíkt skipulag,“ segir Her-
dís.
Spurð hvort afgreiðslutíminn á
heilsugæslunni á Hvolsvelli yrði
lengdur að nýju, segist hún ekki geta
svarað því að svo stöddu og vísar til
niðurstaðna sem eiga að liggja fyrir
1. febrúar.
Upplýsandi samráðsfundur
„Þetta var mjög málefnalegur og
upplýsandi fundur. Það var engin
endanleg niðurstaða en miðað við
umræður fundarins þykir mér meiri
líkur en minni á að það verði opið aft-
ur fimm daga vikunnar á heilsugæsl-
unni,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason,
sveitarstjóri Rangárþings eystra,
eftir fyrri fundinn.
Næsti og væntanlega síðasti sam-
ráðsfundur verður í næstu viku.
Endurskoða heilsu-
gæsluþjónustuna
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar
Suðurlands svarar ákalli Hvolsvellinga
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hvolsvöllur Afgreiðslutími heilsu-
gæslustöðvarinnar var skertur.
Heilsugæslan
á Hvolsvelli
» Var lokuð í sumar en opnuð
að nýju 1. september sl. en var
þá opin þrjá daga vikunnar í
stað fimm daga áður.
» Stjórn Heilbrigðisstofnunar
Suðurlands endurskoðar þá
ákvörðun eftir mótmæli íbúa
svæðisins.
SEÐLABANKI ÍSLANDS
auglýsir eftir umsóknum
um styrk tengdan nafni Jóhannesar Nordals
Auglýst er eftir umsóknum um árlegan styrk sem tengdur er nafni
Jóhannesar Nordals og er afhentur af Seðlabanka Íslands. Tilgangur
með styrknum er að styðja viðleitni einstaklinga sem miðar að því að
varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í
arf.
Umsóknir skulu sendar skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands
fyrir 4. mars 2016. Fjárhæð styrksins nemur samtals 3.000.000 kr.
og verður úthlutað í apríl eða maí 2016. Athugið að fjárhæðinni getur
verið úthlutað til tveggja eða fleiri umsækjenda.
Eyðublöð fyrir umsóknir eru aðgengileg á vef bankans og í afgreiðslu
á Kalkofnsvegi 1.
Nánari upplýsingar veitir Jón Sigurgeirsson framkvæmdastjóri á
skrifstofu seðlabankastjóra.
Seðlabanki Íslands · Kalkofnsvegi 1 · 150 Reykjavík · Sími: 569 9600