Orð og tunga - 01.06.2005, Page 78
76
Orð og tunga
þjóðlíf" (Árni Óskarsson 1980:200-201). Samkvæmt Ritmálsskrá Orða-
bókar Háskólans eru einhver elstu dæmin um samsett orð með þess-
um forlið gúanóverksmiðja frá því um miðbik 19. aldar og gúanóáburður
sem skýtur upp kollinum upp úr miðri öldinni.
4 Lokaorð
Hér hefur verið fjallað lítillega um orð úr tungumálum frumbyggja
Rómönsku-Ameríku sem numið hafa land í íslensku og fleiri Evrópu-
málum. Ljóst er að nokkur slík orð hafa náð að festa sig í sessi í ís-
lensku máli. Flest orð af þessum uppruna hafa borist í gegnum
spænsku, þýsku og dönsku, en þaðan lá leið þeirra yfir í íslensku. Orð-
in eru nafnorð sem tilheyra ákveðum sviðum orðaforðans og í flestum
tilfellum er um hrein tökuorð að ræða sem voru viðbót við orðaforða
viðtökumálanna á sínum tíma. Mörg þessara orða hafa lagað sig að ís-
lensku hljóð- og beygingarkerfi þannig að þau falla algjörlega að mál-
inu og eru daglegur orðaforði í því ásamt samsettum orðum sem þau
mynda. Sum orðanna hafa öðlast þegnrétt sökum langrar vistar í mál-
inu, önnur bera þess glögglega merki að vera af útlenskum uppruna.
Elstu dæmi um flest orðin í íslensku eru að finna í ýmsum heimildum
frá 19. og 20. öld, samanber orðin gúanó og tómatur; meðal elstu orða
af þessum uppruna í málinu eru kanó, frá 17. öld, og orkan, frá 18. öld.
Hér var fjórum orðum gerð nánari skil, kanó, orkan, tómatur og gú-
anó, saga þeirra rakin frá fyrstu rituðu heimildunum uns þau bárust
inn í hin ýmsu viðtökumál og að lokum íslensku. í öllum tungumál-
unum er um góða og gilda þegna að ræða þó að orðin séu notuð mis-
mikið í viðkomandi málsamfélögum. Það sætir furðu hversu lítið orð-
in hafa breyst þrátt fyrir að eiga að baki langt ferðalag. Það er helst að
orðið orkan sé leikmönnum óþekkjanlegt.
Heimildaskrá
Acosta, J. de. 2002. Historia natural y rnoral de las Indias. Madrid: Dastin Historia.
Arango, L.M.A. 1995. Aporte léxico de las lenguas indígenas al espanol de América. Barce-
lona: Puvill Libros.
Alvar, M. 1990. Americanismos en la Historia de Bernal Díaz del Castillo. Madrid: Edicio-
nes de Cultura Hispánica.
Alvar Ezquerra, M. 1997. Vocabulario de indigenismos en las crónicas de Indias. Madrid:
Consejo superior de investigaciones científicas.