Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 6
Þ o r l e i f u r H a u k s s o n
6 TMM 2008 · 4
íðs sjálfs frá einu mesta blómaskeiðinu í skáldskap hans. Friðrik G.
Olgeirsson hefur vitað af þessum bréfum, en samt virðist hann ekki hafa
látið á það reyna hvort hann fengi aðgang að þeim. Þetta eru bréf Davíðs
til Þóru Vigfúsdóttur. Nafn hennar kemur einu sinni fyrir í þessari 467
síðna bók, í eftirfarandi klausu:
Önnur ástkona skáldsins var Þóra Vigfúsdóttir sem var tveimur árum yngri en
Davíð. Samband þeirra var innilegt um tíma og hann orti til hennar ástarkvæði.
Enn eru til eldheit ástarbréf hans til hennar en þau hafa verið innsigluð og fást
ekki opnuð fyrr en einhvern tíma í framtíðinni. Þetta eru viðkvæm mál fyrir
marga því eftir að upp úr sambandi þeirra Davíðs slitnaði giftist Þóra, fyrst
Jóhanni Hafstein kaupmanni en seinna, árið 1934, Kristni E. Andréssyni sem var
landsþekktur maður á sínum tíma, alþingismaður um skeið, bókmenntamaður
og í forystusveit sósíalista.2
Í þessari stuttu tilvitnun er urmull af villum. Í fyrsta lagi var Þóra
nokkrum mánuðum eldri en Davíð, fædd í nóvemberlok 1894.3 Í öðru
lagi var hún gift Jóhanni Havsteen frá 1917 til 1927, það er áður en
samband þeirra Davíðs stóð. Og ef Friðrik hefði spurst fyrir á Hand-
ritadeild Landsbókasafns hefði hann líka komist að því að þessi bréf
hafa verið aðgengileg í áratug. Bréfin afhenti Þóra Landsbókasafni með
milligöngu Nönnu Ólafsdóttur bókavarðar 8. september 1978 með þeim
skilmálum að innsiglið yrði ekki rofið fyrr en að tuttugu árum liðnum.
Rannsókn á þessum bréfum stendur nú yfir, og mun ég væntanlega gera
henni nánari skil áður en langt um líður.
Heimildin sem ævisöguhöfundurinn vitnar til varðandi bréf Davíðs
til Þóru eru eftirfarandi línur í bókinni Hugsjónaeldur, minningabók
Sólveigar Kr. Einarsdóttur um föður sinn, Einar Olgeirsson:
Innileg vinátta föður míns og Davíðs; vináttubönd fjölskyldunnar við Þóru
Vigfúsdóttur, sem síðar gekk að eiga Kristin Andrésson, töfruðu fram ýmsar
hugsanir. Var það kannski til Þóru sem Davíð orti?
Þú skilur eftir minningar hjá mér
um marga gleðistund frá liðnum árum
og alltaf mun ég fagna og þjást með þér,
og þú skalt verða mín í söng og tárum.
Móðir mín hafði sagt mér frá heitum ástum Davíðs og Þóru. Skáldið hafði ort
til hennar og elskað heitt eins og skáld ein geta.
„Og hvers vegna varð ekkert úr þessu ástarævintýri?“ spurði ég þá mömmu og
fannst að allt svona ætti að enda í heilögu hjónabandi. Þannig var ég alin upp í
íhaldssemi borgarastéttarinnar af sjálfum höfuðpaur byltingarinnar. En það var