Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 106
106 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
mánaðardag, sjöunda ágúst, og að það sé merkingarbært. Sú lykiltogstreita sem
þarna birtist snýst öðrum þræði um réttlæti. Í huga sögumanns er það bleyta í
beygju sem veldur dauðsfalli, ekki æðri rökvísi eða kerfi, en Þórir bendir á að
líf kvikni ekki og slokkni að ástæðulausu. Það sem við blasir er andstæðan
milli forsjónar og óreiðu, sem og tvær ólíkar leiðir til að takast á við sorgina. Í
sjálfu sér felast örvænting og endurlausn í báðum viðhorfum og ekki er sann-
gjarnt að ætla skáldsögunni einfaldan boðskap í þessu samhengi. Hins vegar
ber þess að gæta að talan sjö reynist ekki úr lausu lofti gripin. Þórir hefur þegar
bent á hvernig talan tengist lífi og dauða og þegar fram í sækir verður ljóst að
þessi tölustafur er nátengdur söguheiminum. Í innbundinni útgáfu hefst
Afleggjarinn á blaðsíðu sjö og faðir sögumanns er sjötíu og sjö ára gamall þegar
sagan hefst. Vísað er til Flóru Sólar sem sjö mánaða gamallar (þótt hún sé það
rétt tæplega þegar sagan hefst) og fjölmörg önnur áberandi dæmi eru um þessa
tölu. Þessi hlið sögunnar, sú sem snýr að áttablaðarósinni og hinum átta hring-
löguðu rósalundum garðsins, auk nærveru tölustafsins sjö, gefur í skyn að
Þórir kunni að hafa rétt fyrir sér, að tilviljanir séu merki um stærra sam-
hengi.
Einnig má segja að hér sé dæmi um að rökvísi trúarbragða og bókmennta
eigi sitthvað sameiginlegt; höfundarnafnið tryggir að heimurinn sem hefur
verið skapaður sé sjálfum sér samkvæmur og framvindan sé ekki handahófs-
kennd; óhætt er að lifa sig inn í söguna því æðri máttarvöld ábyrgjast hana.
Áætlanir og kerfi sögumanns eiga þó til að fara úrskeiðis og það gerist með
afdrifaríkum hætti þegar barnsmóðirin Anna hefur samband og upplýsir Arn-
ljót um að hún eigi í stökustu vandræðum með að samræma námsáætlanir
sínar og barnauppeldi. Hún spyr hvort mögulegt sé að Arnljótur passi Flóru
Sól tímabundið, hún geti komið með barnið í fjallaþorpið.
Þegar þangað kemur ákveður Anna hins vegar að halda kyrru fyrir, í þorp-
inu er góður friður til að skrifa námsritgerð. Við tekur innilegt, fallegt og að
mörgu leyti spennuþrungið samband þar sem bókstaflega ókunnugt fólk sem
hefur eignast barn gerir tilraun til að búa saman eins og fjölskylda. Arnljótur,
sem hefur verið í vandræðum með ýmsa þætti eigin lífs, hefur í framrás sög-
unnar lýst áhuga sínum á „líkömum“ en er engan veginn viss um að líkamarn-
ir sem vekja áhuga hans séu endilega kvenkyns. Flestir sem hitta Lobba virðast
fljótlega mynda sér þá skoðun að hann sé samkynhneigður og sjálfur hefur
hann áhyggjur af eigin karlmennsku. Ástarsamband hefst þó milli Arnljóts og
Önnu, en þessi hlið persónusköpunar sögumanns, að kynhneigð hans sé á reiki
og eigi sér e.t.v. margar útrásarleiðir, er enn eitt dæmið um hvernig sagan gerir
landamæri óskýr og óljós, hvernig hún þurrkar út kennileiti.
Ekkert er þó óljóst um hæfileika Arnljóts í föðurhlutverkinu og Flóra Sól
hænist skjótt að honum. „Enginn dagur er venjulegur og allt, bókstaflega allt
sem snertir föðurhlutverkið, er nýtt fyrir mér“ (204) segir hann og lýsir þannig
óbeint þeim framandgervingarkrafti sem ljómar af Flóru í sögunni. Hvers-
dagslegustu atriði verða ævintýri líkust og kraftaverk eiga sér stað dag hvern
þegar persónuleiki barnsins opinberast; lýsingar á samveru feðginanna eru