Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 26
L e n a B e r g m a n n
26 TMM 2008 · 4
Jæja, segir amma og lætur ekki hagga sinni ólympísku ró.
En ég komst fljótt að því að með því að tileinka mér orðin jæja og alltí-
lagi og bera þau fram með mismunandi hreim er hægt að halda uppi
löngum samræðum svo við erum báðar ánægðar.
Árni fer að vinna við Þjóðviljann, voða gaman, allir eru honum fegnir,
allir vilja koma og kjafta og fá sér í glas. Svotil um hverja helgi birtast
einhverjir gamlir vinir með vasa troðna. Asni er mest drukkinn. Ég reyni
að hafa til eitthvað að bíta í eins og siður var í Moskvu, ég steiki kartöflur
með lauk, allir eru mjög hissa og segja: við vorum búin að borða. En oft-
ast átu þau kartöflurnar, sem dró nokkuð úr áhrifamætti asnans. Ég
reyni að hlusta. Aha, þarna eru kunnugleg orð: sósíalismi, Khrúsjov, allt
í lagi. Svo dreg ég mig smám saman í hlé inn í svefnherbergi, horfi á
Reykjavík út um sveittan gluggann, bílar á stangli liðu hjá og ég hafði þá
til að geta mér til um hvað yrði: bjargast þetta – eða ekki, venst ég þessu
– eða ekki, verð ég hér áfram – eða ekki … Viskustykkið á öxl minni er
allt orðið blautt eftir þessa væluskjóðu, þessa grátandi kú …
Ég vorkenni líka þeim sem urðu eftir heima. Ímyndaði mér að ein-
hver væri að hringja til okkar af gömlum vana og hringingin enduróm-
ar í mannauðri íbúðinni, á gólfinu eru rifin dagblöð, enn sem fyrr lekur
úr biluðum krana í eldhúsinu og hvar erum við? Aumingja vesalings
vinkonur mínar, vesalings einkabróðir minn hann Júra, bróðir minn og
vinur, hann drakk sig fullan í kveðjuhófinu okkar og grét í baðherberg-
inu, hann er orðinn þrítugur og ég hafði aldrei fyrr séð hann tárast. Eða
þá mamma og pabbi! Drottinn minn, hvað hafði ég gert? Hvað er ég að
gera hér? Hver þarf á því að halda? Svona mun ég steikja kartöflur allt
fram á mitt endadægur …
Og aumingja Snorri, heima fékk hann aldrei kvef en nú er hann kom-
inn með þriðju hálsbólguna, hann getur ekki lifað hér, hann missir
heilsuna. Auðvitað líta börnin hérna ágætlega út, þetta líka rjóð í fram-
an, þau hlaupa um í peysunum einum saman, en í þeim eru önnur gen
en honum …
Viskustykkið kemur aftur í góðar þarfir.
Klukkan er orðin hálftólf, ætla þeir að fara eða ekki?
Ó, margt átti ég ólært …
Skömmu eftir að við komum bað ég Njúshu ( Árna) sem var á leið út
í búð að kaupa handa mér sjampó.
Þegar hann kom aftur með litla flösku af sjampó sagði hann: Heyrðu,
við höfum ekki efni á að kaupa svona, þetta er svo dýrt …
Hann var auðvitað ekki síður ráðvilltur en ég. Hann hafði verið átta