Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 89
U t a n r e g l u
TMM 2008 · 4 89
Þráhyggja og flugur
Ef hægt er að tala um töffara þá var hann þarna kominn, í leðruðu hreistrinu með
alla illsku hafsins skínandi úr augunum. Þetta var einn af þeim löxum sem hafði
fengið slæmt uppeldi, hætt í skólanum snemma, ánetjast örvandi svifi og verið til
stórkostlegra vandræða í laxasamfélaginu. Einn af þeim sem gaf djöfulinn í hóp-
inn og fór sínu fram. Og mér sýndist hann vera 10 kíló plús. (39)
Bubbi Morthens er heill listamannaskáli út af fyrir sig, enda er hann fyr-
irferðarmikill þegar kemur að fjölmiðlum og opinberu lífi; hann hefur
samið reiðinnar býsn af tónlist og söngtextum, auk barnabókanna Djúp-
ríkið og Rúmið hans Árna. Þó fór furðu lítið fyrir bókinni Að kasta flugu
í straumvatn er að tala við Guð. Titillinn vakti strax athygli mína, enda
nokkuð áræðinn – þetta er yfirlýsing sem felur í sér játningu á lifandi trú
höfundar en að sama skapi brött og ýkt túlkun hans á mikilvægi og djúpu
eðli stangveiðinnar. Þarna fara saman tvö svið sem fólki er tamt að hafa
sterkar skoðanir á. Til að mynda get ég hæglega tekið undir þann mögu-
leika að Guð sé til en engan veginn á nokkurn einasta hátt tengt við það
sport sem nefnist stangveiði og gefið því sporti slíka dýpt að það gæti
mögulega leitt beinustu leið inn í aðra vídd eða annað tilverustig. Sannast
sagna er ég tortrygginn á slíkt ofstæki; þegar áhugamannahópar gefa
áhugamáli sínu slíkt vægi. Er ekki hægt að finna leiðina að Guði með
einlægan áhuga og kærleika að leiðarljósi, í hvaða aðstæðum sem er? Gæti
annar sportáhugamaður ekki skrifað smásagnasafnið Að renna þungri
kúlu eftir olíusmurðri brautinni er að tala við Guð? Er ekki sannleikann
alls staðar að finna, líka í smellnum þegar golfkylfa hittir kúluna alveg
kórrétt og þegar handboltinn syngur harpix-klístraður í netmöskvanum?
Að þessu sögðu: Frá fyrstu síðu bókarinnar verður ljóst að höfundur
skrifar af mikilli ástríðu um viðfangsefni sitt. Honum er mikið niðri
fyrir og hann vill gjarnan fanga og setja í orð tilfinningar stangveiði-
mannsins þegar hann hefur sokkið djúpt inn í náttúruna og stendur
einn frammi fyrir fiskinum.
Fyrstu sögurnar eru allflestar í fyrstu persónu, einfaldar reynslusögur
veiðimannsins með ljóðrænu ívafi þó. Stíllinn sá virkar heillandi fram-
an af en verður leiðigjarn þegar á líður. Það er því kærkomið uppbrot
þegar höfundur tekur til við þriðju persónu frásagnir og sviðsljósið
beinist að nýjum persónum og leikendum.
Dæmi um slíka sögu er „Hann, hún og Maríulaxinn” (177) þar sem
sjónum er beint að karlkyns alvönum veiðimanni sem tekur konu sína
með sér í veiði í fyrsta sinn. Hjónabandið stendur tæpt og hefur gert
lengi. Þegar hún veiðir Maríulaxinn sinn (en svo nefnist fyrsti lax hvers