Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 78
Þ r ö s t u r H a r a l d s s o n
78 TMM 2008 · 4
gagnrýni í staðarblaðinu Dresdner Neueste Nachrichten þar sem gagn-
rýnandinn fór sérstaklega fögrum orðum um verk þriggja ungra
íslenskra kvenna, þeirra Báru Grímsdóttur, Mistar Þorkelsdóttur og
Þóru Marteinsdóttur, þau væru „marktæk viðbót við tónlistararfinn“.
Um söng kórsins sagði hann: „… raddir hans urðu undir nákvæmri og
duglegri stjórn Marteins Friðrikssonar að mjög samræmdum og hljóm-
fallegum hópi. Það var sungið með vissri hógværð og mjög smekklega.
Þessi söngmáti leyfði tónlistinni að lifna við án fyrirhafnar. … – þetta
var elskuleg uppákoma fyrir Dresden og áheyrendur sem mættu vel,
fjölmargir.“
Enga Maríu hér
Eftir þessa ferð finnst okkur Dómkórinn hafa lagt nokkuð af mörkum
til sameiningar Evrópu. Þar er þó ýmislegt ógert eins og við urðum vör
við. Það kom nefnilega til ofurlítils trúarbragðastríðs í aðdraganda þess-
arar ferðar. Þannig er að þótt Marteinn sé rammlúterskur hefur hann
tekið heilshugar undir aðdáun Íslendinga á Maríu guðsmóður. Á söng-
skránni eru alltaf einhver Maríuljóð, bæði íslensk og útlend. Þegar þess
var farið á leit við kórinn að hann syngi messu í Frúarkirkjunni morg-
uninn fyrir tónleikana tók Marteinn því fagnandi og sendi strax uppá-
stungu að sálmum sem við gætum sungið. Meðal þeirra var Salve Reg-
ina, falleg lofgjörð til Maríu eftir tékkneska tónskáldið Petr Eben sem er
nýlátinn en hann hefur samið sérstaklega fyrir Dómkórinn og við sung-
um í sjötugsafmælinu hans í Prag árið 1999.
Það kom svar frá Þýskalandi þess efnis að prestunum litist ágætlega á
messuprógrammið, að frátöldu þessu lagi eftir Petr Eben. Okkur væri
frjálst að lofsyngja Maríu eins og við vildum á tónleikunum, en sú ágæta
kona ætti lítið erindi í messu í lúterskri kirkju. Marteinn var gáttaður á
þessu og spurði í einfeldni sinni: – En heitir kirkjan ekki Frúarkirkja?
Klerkunum varð ekki haggað og Salve Regina var felld út af dagskránni.
Svo sameinuð er Evrópa ekki og verður sennilega seint að lúterskir
klerkar, rétt við landamæri hins kaþólska Tékklands, kyngi Maríu guðs-
móður mótþróalaust.
Heimkomin hefur það öðlast alveg nýja vídd að setjast niður og æfa
Jólaóratoríu Bachs sem Dómkórinn flytur á aðventunni. Vonandi stönd-
um við undir væntingum Marteins og náum að túlka þetta dásamlega
verk eins og það verðskuldar.