Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 100
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
100 TMM 2008 · 4
engin orð
yfir það einstaka
bara myndir
maríutásur á himni
og jökull á flugi
Tvítólaveizlan er önnur ljóðabókin sem Ófeigur Sigurðsson gefur út á árinu.
Hún hefst á alllöngum prósakafla, „XY“, þar sem Ófeigur fjallar um tvíkynið
og millikynið á skýran og greinargóðan hátt, með vísunum í Biblíuna, Ham-
skipti Óvíðs og úrvinnslu úr vísindaritum nútímans. Hugleiðingarnar á hann
svo sjálfur: „Tvítóla er rafmögnuð tilfinning, líkamlegur trúarneisti; veröldin
hringar sig og lúrir í lófa manns; sjálfsvitund tvítóla liggur innan í mörkum
svefns og vöku, handan við tungumálið, skynjandi það að líkaminn hvílir
óendanlega sæll og vongóður í meyjarhafti tilvistarinnar; sjálfur eins og lirfa í
púpu bíðandi í ofvæni eftir hamskiptunum.“ Og niðurstaða hugleiðinganna:
„Tvítólaveizlan er draumur.“
Sjálf er ljóðabókin – „veizlan“ – í tveim köflum, X og Y, og gríðarlega mælsk,
eins og ekki ætti að koma lesendum TMM á óvart.
Rósamál er önnur ljóðabók Steinunnar P. Hafstað á fjórum árum. Þetta er
fremur ósamstæð bók, bæði að stíl, aðferð og efni, og gefur til kynna að árin
hafi fært skáldinu margskonar reynslu sem hún vinnur úr á viðeigandi hátt.
Hér hefur hamingjuna borið að:
Á grænu fjalli sköpunarinnar,
þar sem ekkert skyggir á birtu
og sterka lífsorku sólarinnar,
stígum við tvö
listrænan dans
undir regnboganum.
Mig langar líka til að benda ljóðavinum á að nú er Ljóðnámusafn Sigurðar
Pálssonar fáanlegt í einni handhægri bók (JPV), en bækurnar þrjár sem mynda
safnið hafa lengi verið uppseldar. Brotið er nýstárlegt á okkar slóðum en mun
algengt í Frakklandi, ekta „vasabrot“, sirka 10½ x 17½ sm.
Það er ótrúlegt en satt að Pétur Gunnarsson varð sextugur í fyrra og nú eru
komin á bók erindin sem flutt voru um hann á afmælishátíðinni: Af jarðarinn-
ar hálfu heitir safnið (Háskólaútgáfan) og er einstaklega skemmtilegt og læsi-
legt, enda engin smámenni meðal höfunda.
Talandi um söfn langar mig að enda pistilinn á að nefna að Dimma gaf í ár
út allar helstu hljóðritanir á söng Bergþóru Árnadóttur, vísnasöngkonu og
lagasmiðs, samtals rúmlega 100 lög á fimm geisladiskum sem pakkað er í
snotran kassa. Efnismikill bæklingur fylgir með yfirliti yfir líf og feril Berg-
þóru eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson, öllum söngtextum og fjölda mynda.
Myndarlegt og tímabært framtak.