Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 85
Æ v i r l j ó ð s k á l d a
TMM 2008 · 4 85
að neinu marki í verkinu. Ingibjörg segir í áðurnefndu viðtali: „Sú nos-
talgía sem ég þekki er hvorki söknuður eftir horfnum heimi né löngun
til að vera aftur sú sem ég var – kannski er hún alltaf þetta sem ég orti
einu sinni um: „en draumanna /minnist ég með trega/nú þegar kólnar
og dimmir/og bilið vex/milli þess sem er/og þess sem átti að verða.““3
Titill verks Ingibjargar, Veruleiki draumanna, vekur mann til
umhugsunar. Vísar hann til þess að hér sé komin niðurstaðan – svona
var veruleikinn? eða voru draumarnir hinn sanni veruleiki fortíðarinn-
ar? Í ljóðinu sem hún vitnar til hér að ofan nefnir hún bilið milli þessa
tveggja póla; veruleika og draums. Treginn í þeim orðum er ekki endi-
lega merkjanlegur í verkinu, nema þá einna helst í niðurlaginu, þegar
ævintýrin og menntunin í útlöndum færa ekki með sér það sem var
vænst. En þegar farsælt ljóðskáld og áhrifamikill þýðandi heldur á
penna, þá á lesandinn erfitt með að líta á verkið sem tregafulla sögu.
Kannski er það veruleiki draumanna um kommúnismann sem hún á
við – eftir basl og barning í Moskvu og Havana. Hugsjónir sem enda í
húsnæðisleysi og atvinnuleysi, í barneign og flutningi til Íslands í lok
þriðja hlutans, ‘Havana’.
Eins og titillinn ber með sér er Sigurður að velta fyrir sér minninu og
stöðu minninganna í lífi sínu. Í lok fyrsta kaflans, sem segir mjög
skemmtilega frá fyrstu dögum klaufalegs alltof ungs manns í París,
segir: „Minnið er alltaf að störfum. Það endurmótar stöðugt líf okkar og
reynslu. Endurskapar ævi okkar á sérhverjum nýjum degi. Þetta er bók
um nokkur augnablik sem minnið hefur fundið og skapað. Endurskap-
að. Minnisbók“ (13). Sigurður er sér meðvitaður í gegnum allt verkið um
sköpunarmátt minnisins og ekki síst sköpunarmátt sjálfsævisögulegra
frásagna. Hann leikur sér með sjálfssköpun í textanum, leikur sér með
minningar, frásagnaraðferðir, sögusagnir.
Það eru fjölmargir snertifletir við verk Ingibjargar eins og áður var
nefnt og eins og Ingibjörg rifjar hann upp atburði sem fela ekki endilega
í sér auðsæja merkingu, frásagnarboga eða lausn. Hann er á höttunum
eftir andrúmslofti, tilfinningu: „Kvikasilfur löngu liðinna stunda hverf-
ur ekki heldur breytist í eitthvað sem kalla má reynslu. Innlifun“ (bls.
22).
Verkið er uppfullt af fjörugum frásögnum, ungi maðurinn er ein-
hvern veginn allur á iði, fullur óþreyju, hann er blankur, örvænting-
arfullur og plagaður af áhyggjum. En hann er líka kátur, tekur borginni
og lífinu þar opnum örmum. Hann þolir illa lognmollu og stöðnun – og
hvar er þá betra að vera en í París í lok sjöunda áratugarins? Sigurður er
óhræddur við að gera grín að þessari ungu gerð af sjálfum sér og afhjúpa