Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 65
L i t l a r s t ú l k u r o g ú l fa r
TMM 2008 · 4 65
þessi ímynd ýti enn frekar undir hugmyndina um hið fullkomna fjöl-
skyldulíf þar sem eilíf hamingja búi í hjónabandinu. Þessi hugmynda-
fræði varð sterk eftir seinni heimstyrjöldina þegar lögð var rík áhersla á
fjölskylduna á Vesturlöndum.16
Það er athyglisvert að skoða þessi þrjú rauðhettuminni nær okkar
tímum, og hér verður athugað hvernig þau birtast í skáldsögunni Ást á
rauðu ljósi (1960) og kvikmyndinni Freeway (1996). Má velta fyrir sér
hvort kvenhetjan í þessum verkum endurspegli viðhorf samfélagsins,
hvort á sínum tíma, og einnig hvaða rauðhettuminni falli best að þeim.
Ást á rauðu ljósi
María Sjöfn, oftast nefnd Sjöfn, er aðalpersóna bókarinnar Ást á rauðu
ljósi (1960) eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur, og við kynnumst henni þegar
hún stendur á tímamótum í lífi sínu. Hún þarf að taka erfiðar ákvarð-
anir um framtíð sína og á sama tíma glímir hún við fjölskylduvanda-
mál. Hún er ástfangin upp fyrir haus af ungum manni, Þorkeli, og hann
af henni, en móðir hans stendur í vegi þeirra þar sem hún samþykkir
ekki ráðahaginn. Móðir Sjafnar var áður þekkt sem „Magga mella“ og á
seinni árum sem fyllibytta. Hún hefur gifst sjómanninum Brynjólfi en
deyr frá honum og Sjöfn á bókartíma. Þegar Þorkell getur ekki tekið af
skarið og staðið uppi í hárinu á móður sinni ákveður Sjöfn að leysa hann
undan heitum með því að sofa hjá stjúpföður sínum. Eins og allar góðar
ástarsögur endar bókin vel, Sjöfn og Þorkell komast yfir þær hindranir
sem á vegi þeirra verða og flytja út til Parísar eins og til stóð.
Ýmislegt er sameiginlegt með sögu Sjafnar og ævintýrinu um Rauð-
hettu; þær eiga báðar móður sem sendir þær einar og óstuddar út í
heiminn. Á vegi þeirra verður úlfur sem reynir að tæla þær, og líkt og í
útgáfu Grimmsbræðra af Rauðhettu komast þær undan með hjálp karl-
manns/bjargvættar.
Móðir Sjafnar hefur ekkert skipt sér af uppeldi hennar, komið heim
með ókunna karlmenn sem hún hefur selt blíðu sína og ekki leynt því
fyrir dóttur sinni. Sjöfn verður félagslega einangruð og samfélagsleg
útskúfun á móðurinni bitnar á henni. Hún hefur þurft að standa á eigin
fótum síðan hún var smástelpa og virðist ekki hafa átt neina ömmu til að
hlaupa til líkt og Rauðhetta. En ef við skoðum sögu Sjafnar í ljósi kenn-
inga Alans Dundes um „Sögu ömmunnar“, þá er amman framlenging á
móðurinni. Hjá Dundes renna þrjár persónur saman í munnmælasög-
unni, móðirin, amman og úlfurinn. Allar þrjár persónurnar standa fyrir
móðurina, og sagan snýst aðallega um togstreitu á milli móður og dóttur: