Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 84
G u n n þ ó r u n n G u ð m u n d s d ó t t i r
84 TMM 2008 · 4
Einn þráðurinn í verkinu, eins og við er að búast í sögu skálds, er
þróun hennar sem skálds og höfundar. Í æsku semur Ingibjörg vísur og
segir sögur og dreymir um frægð, ætlar að verða kennari, leikkona,
skáld. Hún reynir að máta sig við þjóðskáldin en er spenntari fyrir Ástu
Sigurðar og Steini Steinarr. Hún lýsir fyrstu tilburðunum á ritvellinum
og vonbrigðunum sem fylgdu því að reyna að skrifa skáldsögu. Henni
finnst hún svo slæm að hún rífur hana í tætlur, og áttar sig á því að erf-
iðara er að verða rithöfundur en hún hélt (bls. 74). Hún er staðráðin í að
mennta sig, annað kemur ekki til greina og segist hafa þráð „að eiga
innihaldsríkt líf laust við basl“ (bls. 79). Á menntaskólaárunum taka
skáldadraumarnir á sig skýrari mynd og hún birtir sín fyrstu ljóð í
skólablaðinu. Skáldadraumar og ævintýraþrá, frekar en áhugi á bíó-
myndum, virðast reka hana til Moskvu í kvikmyndagerðarnám og svo
til Havana með kúbanska eiginmanninum sem hún kynntist í skól-
anum. Verkinu lýkur svo á að hún snýr heim eftir nokkurra ára dvöl á
Kúbu.
Í upphafi annars hluta sem nefnist ‘Moskva’ skoðar Ingibjörg ljós-
mynd af sjálfri sér á leið út í flugvél – æst af ferðahug (þótt á myndinni
sjáist bara aftan á hana). „Mér er ekki einu sinni ljóst hver hún eiginlega
var – eða er – þessi ferðaglaða söguhetja sem lifir sínu grágráa lífi á lítilli
ljósmynd og ef til vill víðar, ef til vill er hana einnig að finna í bunka af
gömlum sendibréfum sem liggur hér á borðinu hjá mér. Ég veit það ekki,
en hitt er víst: ég er komin um langan veg að finna hana. Mig grunar að
ég eigi við hana erindi“ (bls. 110). Lesandinn er forvitinn hvaða erindi
hún eigi við hana, það er ekki fyllilega ljóst, það er ekki fjallað um efa-
semdir sem hafa vaknað eða spurningar á tíma skrifanna sem hana
langar að spyrja. En lesandinn spyr sig: hver er draumkerlingin sem
rekur hana aftur til fortíðar – hvaða erindi á hún við sig unga? Þessi
unga stúlka er á vissan hátt horfin henni, hún er ekki viss um að hún
þekki hana og leitar hennar ákaft í bréfunum: „Engu líkara en orðin hafi
fengið aðra merkingu eða öllu heldur: sú sem les þessi orð núna sjái þau
ekki á sama hátt skilji þau öðrum skilningi […] Hvar er það nú, þetta
þrönga einstigi hinnar einu sönnu túlkunar? […] Eitt er víst: bréfin
geyma ekki „sannleikann“ og segja ekki alla söguna. Einu sinni hélt ég
að sannleikurinn væri einn, og taldi mig þekkja hann. Áratugirnir sem
liðnir eru síðan hafa sýnt mér fram á að málið er ekki og var aldrei svo
einfalt. Þessvegna er erfitt að setja sig í spor hennar, stúlkunnar á flug-
vellinum. Ég reyni það samt. Þreifa mig áfram, bréf fyrir bréf“ (bls.
110–111). Í viðtali segir hún að ef til vill sé það eftirsjá eftir því sem aldrei
varð sem reki hana aftur í tímann, en sú eftirsjá eða sorg er aldrei rædd