Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 117
TMM 2008 · 4 117
B ó k m e n n t i r
æðar marmarans“. Slíkar myndlíkingar minna til að mynda á skáldsögu Bruno
Schulz, Krókódílastrætið (1934), en á einum stað lýsir sögumaður heimils-
ástandi fjölskyldunnar á eftirfarandi hátt:
Rúmin stóðu óuppbúin liðlangan daginn með háfermi úfins og kuðlaðs sængurfatn-
aðar eftir þunga drauma. Þau líktust drekkhlöðnum skipum sem biðu byrjar að sigla
inn í saggafulla og villugjarna rangala myrkrar og stjörnulausrar borgar á borð við
Feneyjar.1
Eftir þrumuský, þunga djúpa drauma og ferðalag um slagæðar marmarans, er
lesandi staddur í „farvegi sætra smádrauma“ (31) í „Dagdraumaklasa“, þriðja
hluta ljóðabókarinnar.
Við fyrstu sýn er eins og orðin í þeim kafla falli eins og ljúfir regndropar á
síður bókarinnar, en þegar lengra er haldið finnum við að hjartað slær enn;
sársauki horfinnar ástar hverfur ekki þótt árin líði, það kemur í ljós að „hjart-
að er skynlaus tímavörður / þrælmeyr vöðvi upp úr saltpæklinum // tilbúinn
þó að dæla í ofboði á ný.“ (32) Eins og áður sagði yrkir ljóðmælandinn í Ást-
arljóðum af landi um fortíðina, um horfna ást. Hugsanlega lagði ljóðmæland-
inn af stað í þetta ferðalag til þess að skrifa sig frá sorginni, til þess að sjá ástina
með augum þess sem man eftir henni og lætur sig jafnframt dreyma um að
hafa gleymt sársauka hennar. En með skrifunum vakna gamlir draugar sem
voru líklegast aldrei kveðnir rækilega niður, og hjartað er á sínum stað, tilbúið
að dæla í ofboði á ný.
Í næsta kafla, „Ljóðum úr ljósaskiptum“, er tregafullur tónninn sá sami,
draumkenndur, seiðandi, og undiraldan þung. Hér ferðast ástin um rökkvaðan
heim; „á vegum hamingjunnar og skuggans“ (41) og líklegast sjáum við þessa
ást ekki framar; „þetta verður síðasta ást. Útilokuð. / Hvar sem er, líka í draum-
um og ljóði.“ (40) Eru þetta endalokin? Í kaflanum sem fylgir, „Ljóðum fyrir
lengra komna“, finnur lesandi fyrir kunnuglegri útgáfu af rödd höfundarins.
Strax með titlinum á fyrsta ljóði kaflans, „Ástin á tímum ástarjátninga“, er
tónninn eilítið annar, og ljóðin á eftir eru fyndin, beitt og írónísk; kjarninn er
aldrei langt undan, hjartað er hér, en ekki eins meyrt og áður. Kaflinn endar á
„Aðalatriðaljóðinu“ sem fer yfir sviðið, vegur og metur sorgina og dauðann
sem tilvist okkar er undirorpin, og ljóðmælandi kemst að mikilvægri niður-
stöðu (55):
Aðalatriði málsins er aldrei sjálft aðalatriðið
heldur aukaatriðið sem á undan fer.
Þannig er fordrykkur máltíðinni ljúfari
og þýðingarmeiri
eins og aðfarakossinn ástarleiknum sjálfum –
og lífið sjálft yfirskyggir dauðann
þótt það sé bæði styttra og óáreiðanlegra en hann.