Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 28
L e n a B e r g m a n n
28 TMM 2008 · 4
( Hér fer á eftir setning sem Lena hefur strikað yfir: „Líklega má kalla
þetta barnaskap og blindni en það er ekki auðvelt að segja skilið við þá
von að hægt sé að byggja upp manneskjulegra samfélag.“)
En fyrir meirihluta Íslendinga voru Sovétríkin á þeim tíma „heims-
veldi hins illa“ og allir og allt sem þaðan kom var eitthvað svart, grun-
samlegt og hættulegt. Meðan Snorri var lítill og mállaus sinntu krakk-
arnir í götunni, einkum stelpurnar, honum mikið, pössuðu hann og
léku við hann. En þegar hann var búinn að líta í kringum sig, var farinn
að tala og fór að sýna hvað í honum bjó, fengu árekstrar milli krakkanna
snarlega á sig pólitískan lit.
Rússi, kommi! var sá tónn sem honum var sendur. Einu sinni kom
hann grátandi af skelfingu:
– Mamma, mamma, hann Gaui ætlar að sprengja Rússland!
– Láttu ekki svona, hættu að skæla, þú hlýtur að skilja að einn strák-
pjakkur getur ekki sprengt í loft upp heilt land og það svona stórt.
– Já ég sagði honum það, en hann á stóran frænda sem ætlar að hjálpa
honum. Mamma, hvað eigum við að gera! Hún amma er þar og afi!
Semsagt: að svara venjulegri spurningu forvitinna „ertu þýsk?“ með
því að segja „rússnesk“ var nokkurnveginn eins óþægilegt og að að við-
urkenna í Rússlandi að ég væri gyðingur.
Hér á Íslandi kalla ég mig ekki gyðing vegna þess að þá fara strax af
stað hjá fólki barnalegar tengingar við gyðingatrú, hreina fæðu (kas-
hrút) og umskurn.
Þegar við komum í fyrsta sinn til Íslands árið 1960 og stórfjölskyldan
kom saman í Keflavík við kvöldverðarborð og allir mösuðu fjörlega
meðan ég át og át fyrir tvo, þá vildi einhver, hvernig sem á því stóð, fá
að vita hvort ég væri skírð.
En í minn stað svaraði Jói bróðir Árna, 14 ára lestrarhestur:
– Auðvitað ekki. Gyðingar eru ekki skírðir. Þeir eru umskornir.
Maðurinn minn vann á Þjóðviljanum, og ekki bætti það stöðu okkar í
samfélaginu. Auk þess var hann „sovétnjósnari“ eins og einhverjir voru
öðru hvoru að halda fram á síðum Morgunblaðsins. Ef ég sé eftir einhverju
er það helst það að hafa ekki gefið mig að málaferlum gegn því virta mál-
gagni. Það hefði verið góður bisness en ég lét mér tækifærið úr greipum
ganga. Og enn og aftur er það uppeldi mínu að kenna: mamma kenndi mér
að þegar einhver lætur klám og svívirðingar yfir þig ganga þá svarar þú
ekki í sömu mynt, ferð ekki að ata þig út á því, láttu sem þú heyrir ekki
þetta raus. Svo úreltar voru þær dyggðir sem mér voru innrættar.
Ég má til með að koma hér að atviki sem ég varð vitni að alllöngu