Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 36
L e n a B e r g m a n n
36 TMM 2008 · 4
háskóla og farið svo til útlanda og sjáið bara við hvað hún verður að
vinna. Og bæta því við hvað það sé skelfilegt að búa fyrir vestan.
Satt var það, í landi sósíalismans hafði til orðið skrýtin afstaða til
vinnunnar. Þó slagorðin æptu: Sæmd er að starfi hverju – þá var reynd-
in allt önnur.
Mér er sagt að hægt sé að láta stór tré festa rætur á nýjum stað. En það
verður að standa vel að undirbúningi, losa um jarðveginn í kringum
þau, skera á rætur og bíða svo vors til að flytja þau með allri varúð á stað
við hæfi. En síðar fer sem guð vill: sum festa rætur og yndi eins og ekk-
ert hefði í skorist, önnur visna, en svo er eins og sum tré þurfi tíma til
að hugsa sig um hvort það taki því að ganga í þennan leik. Þau hvorki
vaxa né visna þar til þau ákveða allt í einu að slá til og flýta sér nú sem
best þau mega, skjóta út ungum greinum, en æ, þau bregðast of seint við,
þau hafa glatað tíma, næstu tré hafa vaxið upp fyrir þau og skyggja á þau
– en þau gefa þeim einnig skjól fyrir vindum …
Ég taldi mig vita fyrir víst að hér mundi ég ekki festa rætur. Rússar
geta yfirhöfuð hvergi lifað svo vel sé nema undir sínum björkum. Þetta
vita menn úr bókmenntum, bæði klassískum og útlagabókmenntunum,
að ekki sé talað um þær sovésku.
Púshkin til dæmis, hann fór aldrei til útlanda, kom aldrei út fyrir
landamærin, má vera að einmitt þess vegna hafi hann verið skálda mest
og rússneskast. En Túrgenev flutti til Frakklands eða svo gott sem, eltist
við þessa útlensku konu, Pauline Viardot, og það varð ekki til góðs. Hver
les hann núna ótilneyddur?
Og ef maður les útlagana, hvað blasir þá við? Þeir bjuggu alla æfi
erlendis, eiga útlend börn að ekki sé minnst á barnabörnin, en hvað
varðar þá um þessi útlönd! Rússland, Rússland … Tregi … Söknuður …
Grár himinn yfir slegnum ökrum … Svartar blákrákur á snjóhvítum
björkum, sem umvafðar eru bláma vorsins …
Hvað er þetta – ótti við að leysast upp og týnast í framandi fjölda,
óskin um að varðveita goðsöguna, sveipa sig geislabaug sérstöðunnar?
Ó, þú rússneska sál sem ekki ert öðrum lík, leyndardómsfull, víð-
feðm, örlát, góð og ósérplægin …
Ég er hrædd um að sál þessi sé goðsögn rétt eins og bjarkirnar. Ég
undraðist það að í Frakklandi og Ameríku hitti ég fyrir alveg eins hvítar
bjarkir, kannski voru þær barasta hærri og beinvaxnari. En hvað varðar
hina rússnesku sál … Kannski var hún einu sinni til en hún er horfin.
Hún var soðin og söxuð í endalausri kjötkvörn styrjalda, innbyrðis
átaka, tortryggni. Í borgarastríðinu réðist bróðir á bróður og börn á for-