Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 45
S t o l n a r s t u n d i r
TMM 2008 · 4 45
Ása hreyfði sig ekki úr sófanum en Þórir strunsaði að vinnu-
borði í útjaðri stofunnar, þessa stílhreina og fábrotna flæmis sem
Ása hafði mótað eftir sínu höfði eða réttara sagt höfði sjónvarps-
þáttar sem hún hafði legið yfir fyrir nokkrum árum. Veggir höfðu
verið brotnir niður svo engin eiginleg skil voru milli eldhúss,
borðstofu og stofu. Stór flatskjár var skrúfaður í einn vegginn.
Hljómflutningstæki voru í lokuðum skáp sem hægt var að opna
með fjarstýringu. Alls kyns húsmunir og skraut frá fyrri tíð voru
horfin. Það voru engar bókahillur og engar bækur. Lesefni sótti
hann sér niður í geymslu eða á bókasafnið auk þess sem hann
hafði fyllt eina bókahillu í vinnunni. Glerplötur, gráar gólfflísar og
grálökkuð húsgögn sögðu að öðru leyti söguna um þessar vist-
arverur ásamt hvítum veggjum og lofti, að ógleymdu öllu auða
plássinu, tóminu.
Þau höfðu ráðist í breytingarnar fyrir fimm árum og þær höfðu
tekið skelfilega langan tíma. Reyndar leiddist honum ekki að taka
til hendinni og fékk góða útrás við að rífa burtu gömlu eldhúsinn-
réttinguna. Það var líka ágætt að hvítmála veggina og loftin, dálít-
ið eins og að vera aftur orðinn skólastrákur í sumarvinnu. En
helstu verkin voru í höndum iðnaðarmanna, gólfflísalagningin og
niðurbrot veggjanna. Á meðan bjuggu þau hjá foreldrum hennar, í
um þrjár vikur. Honum fannst óþægilegt og pínlegt að kúldrast
þar með börnin. En síðar fylltist hann einkennilegum söknuði
eftir íbúð tengdaforeldranna. Stofan var hlýleg með mjúku sófa-
setti og þykku teppi, nánast troðin smáhlutum á borð við potta-
blóm, vasa, fuglastyttur og hraunmola. Veggirnir voru þaktir
bókum: Laxness, Þórbergur, Gunnar Gunnarsson, samtímahöf-
undar, ljóðaperlur, Öldin okkar, Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
Eftir breytingarnar leið honum ekki eins og heima hjá sér hér.
Það furðulega var að hann gat ekki munað hvernig hafði verið
umhorfs fyrir breytingarnar. Alltaf þegar hann reyndi að rifja það
upp komu vistarverur tengdaforeldranna upp í hugann.
Hann hugsaði um þetta og horfði í kringum sig. Þetta var
kuldaleg og persónuleikalaus íbúð, næstum eins og leikmynd í
auglýsingu, gjörsneydd blæbrigðum, ekki síst þar sem Ása var
stöðugt að taka til og fjarlægði minnsta vott af óreiðu. Þarna sat
hún, ómáluð og í flíspeysu. Ása var vissulega sæt en hún var engin