Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 88
88 TMM 2008 · 4
Davíð A. Stefánsson
Utan reglu
Snarskýrsla um smásögur 2007
Örstutt um stöðu smásögunnar í neysluhillu nægtaborðsins: Fólk sækir
almennt ekki í smásögur, það er að segja: Ég held það sé afskaplega fátítt
að eftir kvöldmat vakni beinskeytt og vel skilgreind þrá innra með fólki
sem segi: „Mikið óskaplega langar mig að lesa smásögu núna.“ Sama leið
að skáldsögu, bíómynd eða leiksýningu er greiðari, enda þeir menning-
arneyslumöguleikar betur skilgreindir og afmarkaðir.
Það er óskaplega erfitt að negla niður hvaða reglum smásaga á að lúta.
Hörðustu smásagnaflokkanir vilja að innan textans eigi sér stað einhver
umbreyting þess sem fjallað er um – að söguhetjan standi frammi fyrir
tilteknum aðstæðum sem umbreyta lífi hennar eða viðhorfum. Öðrum
stendur nokk á sama og kalla alla styttri prósa smásögur, enda koma marg-
ar bækur út undir merkjum smásögunnar sem uppfylla alls ekki nein skil-
yrði um framvindu, atburðarás eða umbreytingar. Sumar smásögur eru
einfaldar athuganir, stemningar, frásagnir og útprjónaðar mannlýsingar.
Árið 2007 komu út allnokkur smásagnasöfn og hér verður fræst í
gegnum fjögur þeirra til skoðunar: Að kasta flugu í straumvatn er að tala
við Guð eftir Bubba Morthens (JPV), Aukaverkanir eftir Halldóru Krist-
ínu Thoroddsen (Ormstunga), Endurfundir eftir Einar Kárason (Mál og
menning) og Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson (Uppheimar).
Tvö önnur jómfrúarverk í smásagnaformi komu út á árinu: Vaxandi
nánd eftir Guðmund Óskarsson (Nykur) og Dögum fóru og nóttum eftir
Magnús Baldursson (Fámenna bókafélagið), bæði ágætis atlögur nýrra
höfunda inn á markaðstorg íslenskra bókmennta. Bók Guðmundar
auðlesin, létt á brún og brá og gefur góð fyrirheit um framtíðarritun, bók
Magnúsar öllu tormeltari, innhverfari og heimspekilegri.
Enga sameiginlega þræði var að finna í þessum sex smásagnasöfnum
og því fátt um eiginlega niðurstöðu, aðra en þá hvílík synd er að bækur
sem falla í flokkinn smásögur hljóti ekki almennilega athygli og seljist
ekki eins og heitar lummur.