Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 134
134 TMM 2008 · 4
L e i k l i s t
Silja Aðalsteinsdóttir
Leiklistin í haust
Fyrsta frumsýning vetrarins var í barnaleikhúsinu Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á
Klókur ertu, Einar Áskell, sem brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik samdi og
setti upp í samstarfi við höfund þessara vinsælu bóka, Gunillu Bergström (hún
valdi Bernd sjálf til verksins) og leikstjórann Kristján Ingimarsson. Þetta var
klassískt brúðuleikhús að því leyti að hér var allt smátt og persónulegt og treyst
á ímyndunarafl áhorfenda. Ekki sviku börnin Bernd og Einar Áskel, en full-
orðnum þótti sýningin fremur tíðindalítil þótt bæði væri hún sæt og smekk-
leg.
Afkastamikið leikskáld
Næst kom Fýsn í Borgarleikhúsinu, nýtt verk eftir hið efnilega leikskáld Þórdísi
Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann sem Marta Nordal stjórnaði. Þetta er loka-
verkið í þríleik sem hófst í Hafnarfirði með Brotinu fyrir þremur árum og hélt
áfram með Hungri á litla sviði Borgarleikhússins í hittifyrra. Þórdís segir sjálf
að þríleikurinn skoði þráhyggju fólks. Í Fýsn kynnist Fanney Sævari, mynd-
arlegum ungum manni, og verður ástfangin. Þau giftast og allt gengur vel uns
Fanney fer að leiðast áhugaleysi Sævars á líkamlegu samneyti við hana. Þar
kemur að hún togar upp úr honum að hann berjist við þrá sína eftir ungum
drengjum. Við skynjum að Sævar hefur sjálfur verið misnotaður af föður
sínum og hafi látið undan hvötum sínum þegar hann var ölvaður. Hann hélt að
hann gæti haldið þeim niðri með því að hætta að drekka og gifta sig, og það
gengur um tíma – en ekki til lengdar. Fanney verður að vonum illa slegin en
vill gefa Sævari og hjónabandinu annað tækifæri. Það fer ekki vel.
Ekki þarf að koma á óvart að Fanney varð mun sennilegri persóna en Sævar.
Höfundur á eðlilega auðveldara með að lifa sig inn í hugsanir hennar. Sara
Dögg Ásgeirsdóttir lék hana af miklum þrótti og sannfæringarkrafti; geðsveifl-
ur persónunnar gengu nærri áhorfendum sem bæði skildu hana og fundu til
með henni. Ekki dró úr áhrifum hvað búningarnir sem Rebekka A. Ingimund-
ardóttir hannaði á hana voru glæsilegir. Textinn sem höfundur lagði Sævari í
munn, bæði í samtölum hans við konu sína og eintölum, voru helst til kunn-
uglegar klisjur úr umræðum, greinum og skálduðum textum um barnagirnd á
undanförnum árum, en Björn Ingi Hilmarsson fór virkilega vel með hann.