Saga - 2004, Blaðsíða 41
lagðist síðan niður eftir að Ölfusá flæddi yfir svæðið snemma árs
1943.
Bjarni Benediktsson brást skjótt við erindi Valgeirs og daginn
eftir skrifaði hann flokksbróður sínum Ólafi Thors atvinnumálaráð-
herra, formanni Sjálfstæðisflokksins:
Til þessara aðgerða herstjórnarinnar hefir samþykkis stjórnar-
valda bæjarins eigi verið leitað, enda mundi það fráleitt hafa
verið veitt, því að dráttur sá, sem orðið hefir á framkvæmdum
um flugvallargerð af hálfu innlendra aðila, stafar ekki síst af
óttanum við, að flugvöllur í námunda við bæinn muni mjög
auka á þá hættu, að bærinn verði fyrir hernaðarárás. Sú hætta
verður enn meiri, ef völlurinn er beinlínis ætlaður fyrir her-
flugvélar.
Af þessum ástæðum vil ég eindregið fara þess á leit við
hæstvirta ríkisstjórn, að hún geri það, sem í hennar valdi
stendur, til að fá bresku herstjórnina til að hverfa frá þessum
fyrirætlunum sínum.
En ef svo skyldi fara, að tilraunir ríkisstjórnarinnar í þessa
átt yrðu árangurslausar, vil jeg leggja til, að ríkið nái nú þegar
eignarhaldi á landi því, sem ætlað er undir þenna[n] flugvöll
og er einkaeign, þar sem ráðgert hafði verið, að ríkið legði það
af sinni hálfu fram til flugvallargerðar í Reykjavík, en eðlileg-
ast er, að sömu aðilar og síðar meir ætla sér að hafa þarna flug-
völl, hafi umráð landsins alt frá því, að mannvirki í þessu
skyni eru þar hafin.69
Tveimur dögum síðar, hinn 17. október, tók bæjarstjórnin undir
með borgarstjóra og lýsti sig andvíga áformum Breta.70
Ólafur Thors ræddi þegar í stað við Charles Howard Smith,
sendiherra Breta í Reykjavík, og skýrði honum frá afstöðu borgar-
stjóra. Jafnframt tjáði Ólafur sendiherranum að afstaða ríkisstjórn-
arinnar til málsins væri hin sama og borgarstjórans. Í svarbréfi sínu
til borgarstjóra sagðist Ólafur hafa áréttað þetta bréflega.71 Hann
hafði því sem ráðherra atvinnu- og samgöngumála mótmælt flug-
vallargerðinni en áhöld eru um hvort ríkisstjórnin gerði það form-
lega. Í skýrslu sem Stefán Jóhann Stefánsson félagsmálaráðherra
R E Y K J AV Í K U R F L U G V Ö L L U R 41
69 ÞÍ. Samgönguráðuneyti. 1995 B/105 1 1939–1948 Flugvellir: Reykjavík. Bjarni
Benediktsson til Ólafs Thors, 15. okt. 1940.
70 „Bretar vilja byggja flugvöll í nágrenni bæjarins“, bls. 1.
71 BsR. Aðfnr. 3398. Ólafur Thors til Bjarna Benediktssonar, 24. okt. 1940.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:32 Page 41