Saga - 2004, Blaðsíða 232
vörðungu sérstaklega vönduð lokaritgerð heldur grundvallarrit í félags-
sögu. Tók hún öllu fram sem þá hafði verið ritað um vesturferðir Íslend-
inga. Þess vegna hefur oft verið til hennar leitað í handriti á Landsbókasafni
Íslands – Háskólabókasafni og til hennar vitnað. Það var því löngu tíma-
bært að hún væri gefin út á bók, jafnvel þótt hún væri aðeins endurskoðuð
að því marki að hún samræmdist Vesturfaraskrá Júníusar H. Kristinssonar.
Í ritinu leiða Helgi Skúli og Steinþór rök að því hversu stór hópur út-
flytjendanna hafi verið og greina frá kyni þeirra sem fluttu búferlum, aldri
og stöðu. Niðurstöður þeirra eru hins vegar byggðar á heimildum sem eru
ærið gloppóttar eins og þeir benda á. Það væri því þarft verkefni að rann-
saka þær heimildir sem finna má í skjalasöfnun í Bandaríkjunum og
Kanada um innflytjendur frá Íslandi. Síðan væri æskilegt að bera samsetn-
ingu hópsins, frekar en gert er í ritinu, saman við hvers konar fólk valdist
til vesturferða frá öðrum löndum í Norðurálfu. Ritið fjallar lítið um flutn-
inga sem urðu hér innanlands, bæði áður en vesturflutningarnir hófust og
á sama tíma og þeir áttu sér stað. Í stuttri grein í Nýrri sögu 1989 (bls. 62–64)
bendir Helgi Skúli hins vegar á að á norðausturhorni landsins, sem var eitt
aðalútflutningssvæðið, hefðu verið uppgangsbyggðir, þangað hefði fólk
flutt, fólksfjölgun orðið og giftingaraldur lækkað áður en vesturfarirnar
hófust. Athyglisvert væri að skoða samband þessarar þróunar og Ameríku-
ferða frekar. Þá fjallar ritið lítið um flutninga Íslendinga á milli byggðarlaga
í Norður-Ameríku en alkunnugt er að það tók ýmsa langan tíma að finna
sér samastað, sem þeim þótti henta, fyrir vestan og margir fluttu ítrekað
innan og milli fylkja, bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Það er verkefni
nýrra rannsókna að skoða þessa fólksflutninga í samhengi við Ameríku-
ferðirnar og athuga fordómalaust hvers vegna fólk hélt áfram að flytja þeg-
ar vestur var komið. Vanalega eru flutningarnir settir í samband við leitina
að réttum stað fyrir íslenska nýlendu en vert er að minnast þess að margir
Ameríkufaranna kusu að búa ekki í íslenskri nýlendu og misstu jafnvel
fljótt tengslin við landa sína vestra eins og Rögnvaldur Pétursson benti á í
grein í 1. árg. Tímarits Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi árið 1919.
Nýlegar rannsóknir á íslenskri samfélagssögu á 19. öld, svo sem rann-
sóknir Gísla Ágústs Gunnlaugssonar, Guðmundar Jónssonar, Halldórs
Bjarnasonar og Ólafar Garðarsdóttur á fátækt, vinnumennsku, vistarbandi,
hjúskap og barneignum, gefa auðvitað tilefni til að leita róttækari skýringa
á vesturferðunum en gert er í ritinu Framtíðin handan hafs. Jafnframt væri
unnt að skoða nánar samband vesturferða og nýrra rannsókna í hagsögu
tímabilsins og hvaða áhrif landshagir hér á landi og vestra höfðu á vestur-
ferðir og öfugt. Rétt er einnig að beina sjónum að því hvers vegna um 80%
landsmanna fluttust ekki vestur. Vitað er um marga sem höfðu hugleitt að
fara en heyktust á því. Auðvitað er langlíklegast, eins og bent er á í ritinu,
að það séu engar einfaldar skýringar til á vesturferðunum og verði því að
leita þeirra jafnt í hagsögu og hugarfarssögu tímabilsins. Nýlegar útgáfur á
R I T D Ó M A R232
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:34 Page 232