Saga - 2004, Blaðsíða 190
eigin texta á milli“ en stoppar þess í stað upp í textann frá Hallberg
með textum úr ritum annarra höfunda. Rit Hallbergs verða uppi-
staðan í bók Hannesar eftir að minningabókum Halldórs sleppir
undir lok fjórða kafla ævisögunnar og er þeim fylgt fast eftir niður í
smæstu einingar. Varðar efnistakan ekki einungis rannsóknir Hall-
bergs, heldur einnig framsetningu hans og texta íslensku þýðingar-
innar.11 Þó er ofsögum sagt að Hannes hafi „sannreynt“ textann sem
hann nýtir sér, því að villur sem hafa slæðst inn í texta Hallbergs eða
íslensku þýðinguna á honum ganga aftur í texta Hannesar.
Á því tímabili sem bók Hannesar nær til gaf Halldór Laxness út
sex bækur, Barn náttúrunnar (1919), Nokkrar sögur (1923), Undir
Helgahnúk (1924), Vefarann mikla frá Kasmír (1927), Alþýðubókina
(1929) og Sölku Völku (1931–32). Af umfjöllun Hannesar er ekki að
sjá að hann hafi lesið mikið í þeim annað en efnisútdrátt Hallbergs,
og það ekki alltaf mjög vel. Nánast öll umræða um bækurnar er
einnig komin frá Hallberg. Beinar tilvitnanir í bækur Halldórs eru
yfirleitt teknar úr ritum Hallbergs og sjaldnast farið í frumtextann.
Þær eru oft ónákvæmlega upp teknar og í þeim töluvert af villum.
Gildir þetta einnig um aðrar beinar tilvitnanir í bókinni. Hér er að-
eins hægt að sýna örfá dæmi um þessi vinnubrögð sem blasa við á
nánast hverri blaðsíðu bókarinnar.12
Í Vefaranum mikla I fjallar Hallberg um þrjár fyrstu bækur Hall-
dórs Laxness. Þessa kafla fellir Hannes inn í bók sína með því að
draga textann saman, breyta röð atriða, hnika til orðalagi og skipta
út orðum. Gott dæmi um aðferðir Hannesar og vinnubrögð hans við
textatökuna er umfjöllun um Barn náttúrunnar sem reynist vera eftir
Hallberg þótt ekki sé það tekið fram.
H E L G A K R E S S190
11 Þessi rit eru Peter Hallberg, Vefarinn mikli. Um æskuskáldskap Halldórs Kiljans
Laxness. I–II (Reykjavík, 1957–1960), Björn Th. Björnsson og Jón Eiríksson
þýddu úr sænsku, Den store vävaren. En studie i Laxness’ ungdomsdiktning
(Stockholm, 1954), og Hús skáldsins. Um skáldverk Halldórs Laxness frá Sölku
Völku til Gerplu. I (Reykjavík, 1970), Helgi J. Halldórsson þýddi úr sænsku,
Skaldens hus. Laxness’ diktning från Salka Valka till Gerpla (Stockholm, 1956). Sjá
einnig „Heiðin. Fyrsta uppkastið að skáldsögunni Sjálfstætt fólk“, Tímarit
Máls og menningar 16:3 (1955), bls. 280–323.
12 Um frekari rökstuðning, sjá: Helga Kress, Eftir hvern? Skýrsla um meðferð texta
og tilvitnana í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Halldór 1902–1932. Ævi-
saga Halldórs Kiljans Laxness (Reykjavík, 2004), www.hi.is/~helga/
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:33 Page 190