Saga - 2004, Blaðsíða 240
um) og kjörið sér stjórn þriggja heildsala (bls. 158). Þannig að eitthvað hafði
félagið nú breyst, þótt reyndar sé svo að sjá (bls. 178–179) að þeir Magnús
og Georg séu einu hluthafarnir sem Jakob hefur vitneskju um á tímabilinu
og ekki voru kaupsýslumenn eða atvinnurekendur. Um bombu Þorsteins
ályktar Jakob svo (bls. 181–182), að Íhaldsflokkurinn hafi ekki haft af henni
miklar áhyggjur úr því að hann var fáum vikum síðar til viðræðu um að
yfirtaka blöð Árvakurs, sem þó varð ekki úr. Mér virðist þvert á móti að bak
við þessa hugmynd grilli í örvæntingu um hvort blöðin eigi sér viðreisnar
von undir svo óvinsælu eignarhaldi.
Jakob gerir sums staðar rökstuddan ágreining um túlkun annarra höf-
unda, sérstaklega tvær snarpar rispur gegn Guðjóni Friðrikssyni (í bók
hans Nýjustu fréttir!, Reykjavík 2000), fyrst um það hvort fremur eigi að
minnast Valtýs Stefánssonar eða Finnboga Rúts Valdimarssonar sem frum-
kvöðuls nútímalegrar blaðamennsku á Íslandi (bls. 307–311), síðan um það
hvort Morgunblað Valtýs hafi verið undirlagt af flokkspólitík með líkum
hætti og blöð annarra flokka (bls. 428). Lesendum skal vísað á svar Guðjóns
í vorhefti Sögu (42:1 (2004), bls. 121–125) og að öðru leyti bent á að bækur
þeirra Jakobs og Guðjóns styðja ágæta vel hvor aðra, þar sem rækileg frá-
sögn af blaði Valtýs Stefánssonar fyllir upp í almennari mynd Guðjóns af
blaðaútgáfu og blaðamennsku tímabilsins.
Jakob dregur enga dul á aðild Valtýs og Morgunblaðsins að þeim póli-
tísku öfgum og persónulega skítkasti sem svo lengi tröllreið íslenskri blaða-
mennsku. En hann sýnir Valtý sem tiltölulega seinþreyttan til slíkra vand-
ræða — vígreifan þó þegar mest gekk á — og umfram allt frumkvöðul ann-
ars konar blaðaskrifa við hlið hinna pólitísku, einmitt þess háttar blaða-
mennsku sem gaf Morgunblaðinu breiðari skírskotun en hinum beinu
flokksmálgögnum. Framan af ferli Valtýs tekur Jakob einkum dæmi af deil-
um hans við Tímann og hrottalegum árásum Jónasar frá Hriflu sem Valtýr
átti til að svara í sama tón. Síðan taka við mannskemmdadeilur kalda
stríðsins með kommúnista eða sósíalista sem höfuðandstæðinga. Þar víkur
Jakob að frægum hnýfilyrðum Valtýs um hlutleysisboðskap Sigurbjörns
Einarssonar síðar biskups (bls. 468–469), sem hann hlífist þó við að vitna til
orðrétt, en hneykslast í staðinn á dólgslegum orðum sem ævisöguritari Sig-
urbjörns notaði löngu síðar um andstæðinga hlutleysis, og er það eitt lakasta
dæmið, þótt lítið sé, um skotgrafastellingar ævisöguritarans. Miklu ræki-
legri umfjöllun (bls. 472–491) fær ritdeila sem Halldór Laxness vakti 1952
með árás á Valtý út af ritlaunum sem hann átti löngu fyrr að hafa haft af
skáldinu. Valtýr ber af sér sakir, en hinn espast því meir, hagræðir ásökun-
um sínum frá einni grein til annarrar, og reynast þær þó, þegar Valtýr og
Jakob hafa borið þær saman við samtímaheimildir, merkilega tilhæfulaus-
ar. Kannski „fer maður strax að hlæja þegar sannleikur og Halldór eru
nefnd í sömu andránni og Halldór hlær þá manna hæst“ (eins og Pétur
Gunnarsson sagði af öðru tilefni í Lesbók Morgunblaðsins 24. janúar 2004);
R I T D Ó M A R240
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:34 Page 240