Saga - 2004, Blaðsíða 239
þess sem seinna varð „Tímaklíkan“ og kjarni Framsóknarflokksins. Af því
að Valtýr tengist þessari fylkingu í Kaupmannahöfn, þar sem foringinn er
Hallgrímur Kristinsson (og Héðinn Valdimarsson meðal liðsmanna), en
ekki í Reykjavík undir handarjaðri Jónasar frá Hriflu, þá sér lesandinn hana
hér frá nýstárlegu sjónarhorni og verður að fróðari um rætur Framsóknar-
flokksins. Heimkominn til starfa hjá Búnaðarfélaginu (1920–1923) losnaði
Valtýr úr tengslum við þessa áformuðu samherja sína (maður sér ekki ná-
kvæmlega hvernig; stór orð Jakobs um atlögu framsóknarmanna að Sigurði
Sigurðssyni búnaðarmálastjóra og full yfirráð þeirra í Búnaðarfélaginu (bls.
143) hljóta að vera mikil einföldun, nema þau eigi við um eitthvert stutt
tímabil). Var Valtýr síðan „liðhlaupi“ í augum Jónasar frá Hriflu. Enda gekk
hann í öndverðan fjendaflokk Jónasar með því að taka við ritstjórn Morgun-
blaðsins 1924, á óvissutímum í sögu þess. Óvíst var um afkomu blaðsins,
sem kaupsýslumenn í Reykjavík höfðu haldið úti með ærnum tilkostnaði
og margföldum vonbrigðum, óvíst líka um frambúðartengsl þess við hinn
nýstofnaða Íhaldsflokk Jóns Þorlákssonar, og ekki síst lá fyrir að finna því
stefnu sem fjölmiðli. Úr öllu þessu greiddist á næstu árum, mest fyrir til-
verknað Valtýs sem auk annars varð aðaleigandi blaðsins, með nærri helm-
ing hlutafjár („ráðandi hlut“ eftir nútímaskilningi) á móti knöppum meiri-
hluta kaupsýslumanna.
Það vantar reyndar ekki að margt sé fróðlegt í síðari hluta bókarinnar
líka. Framkvæmdasaga Morgunblaðshallarinnar (bls. 499–503, 509–511,
520–522) er t.d. stórmerkilegt dæmi um krókaleiðir íslenska haftakerfisins
og góð viðbót við sérstaka bók Jakobs um það efni (Þjóð í hafti 1988).
Túlkun í sögu er alltaf álitamál. Jakob tekur jafnan skýra afstöðu, oft vel
rökstudda; maður fellst á flest en hikar við annað. Ég hika við viss atriði,
annar lesandi myndi hika á öðrum stöðum, enda erfitt að bægja hér frá per-
sónulegu mati — að ekki sé sagt pólitískum smekk. Deilur um eignarhald
á Morgunblaðinu (bls. 172–184) eru eitt af því sem flækist fyrir mér. Valtýr
tók við ritstjórn (ásamt Jóni Kjartanssyni) þegar eigendurnir höfðu gefist
upp á fyrri ritstjóra, Þorsteini Gíslasyni, og vikið honum frá. Þorsteinn
svaraði með einni öflugustu fýlusprengju íslenskrar stjórnmálasögu þar
sem hann gerir sér að vopni erlend ættarnöfn og mest danskan uppruna
kaupsýslumannanna sem réðu blaðinu. Jakob túlkar þetta auðvitað hárrétt
sem rætna hefndaraðgerð Þorsteins, en bætir því við að það hafi verið
sömu eigendur sem Þorsteinn vann fyrir í þrjú ár og „engar breytingar á
eignarhaldi“. Þetta virðist ástæðulaus einföldun. Um hlutafélagið Árvakur,
sem Þorsteinn réðst til 1921, segir Jakob (bls. 156) að hluthafar hafi verið
„þekktir kaupmenn, heildsalar og útgerðarmenn en jafnframt frjálshuga
menn úr öðrum störfum“, og nefnir hann þar til fyrsta formanninn, Magnús
Einarsson dýralækni, og annan af tveimur meðstjórnendum, Georg Ólafs-
son síðar bankastjóra. Áður en Þorsteinn var rekinn hafði félagið tapað öllu
upphaflegu hlutafé, safnað nýju (ásamt beinum styrkjum frá kaupmönn-
R I T D Ó M A R 239
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:34 Page 239