Morgunblaðið - 26.04.2018, Blaðsíða 68
68 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. APRÍL 2018
✝ Ágúst KarelKarlsson fæddist
í Reykjavík 20. maí
1932. Hann lést 14.
apríl 2018 á Líknar-
deild LHS í Kópavogi.
Foreldrar Ágústs
voru hjónin Karl
Ágúst Ágústsson bif-
reiðarstjóri, f. 15. des.
1908 í Þverárkoti á
Kjalarnesi, d. 1. jan-
úar 1998, og Guðrún
Eggertsdóttir, f. 10. júní 1909 á
Stóru-Drageyri í Skorradal, d.
15. ágúst 1998.
Systkini Ágústs eru þau Egg-
ert H. Karlsson, f. 1936, d. 1983,
og Unnur Karlsdóttir, f. 1940.
Ágúst kvæntist 29. júní 1957
Guðríði Sæmundsdóttur fóstru, f.
3. sept. 1931 á Ísafirði, d. 13. feb.
2009.
hóf nám í rennismíði í Iðnskól-
anum, lauk sveinsprófi hjá Agli
Vilhjálmssyni hf. og meistara-
prófi í þeirri iðn 1957. Hann lauk
vélstjóraprófi í Vélskólanum í
Reykjavík 1955 og rafmagnsdeild
1956. Ágúst starfaði sem aðstoð-
arvélstjóri á skipum Eimskipa-
félags Íslands 1954-57, en þá hóf
hann störf við tjónaskoðanir hjá
Tryggingu hf. Þar vann hann sig
upp innan fyrirtækisins, sem
skrifstofustjóri og að lokum sem
framkvæmdastjóri þar til félagið
var sameinað Tryggingamiðstöð-
inni 1999. Einnig var Ágúst í
stjórnum ýmissa fyrirtækja.
Hann stundaði rjúpna- og lax-
veiðar. Það var þó flugið sem átti
hug hans allan frá byrjun níunda
áratugarins. Átti hann meðal
annars hlut í því að koma á sam-
félagi flugáhugafólks í Múlakoti í
Fljótshlíð.
Hann gerði upp fjölmarga bíla
og flugvélar ásamt því að byggja
húsnæði fyrir fjölskylduna.
Útför Ágústs fer fram frá
Fossvogskirkju í dag, 26. apríl
2018, kl. 13.
Börn þeirra eru:
1) Unnur, f. 28. júlí
1965, búsett í
Reykjavík ásamt
eiginmanni sínum,
Magnúsi Arnars-
syni. Börn þeirra
eru Kara, Ágúst
Karel og Tinna. 2)
Helgi Þór, f. 5. feb.
1970, búsettur í
Reykjavík ásamt
eiginkonu sinni
Elsu Margréti Finnsdóttur. Börn
þeirra eru Arnar Ingi og Rakel.
3) Fóstursonur Ármann, f. 23.
janúar 1955, vistmaður á
Sólheimum.
Ágúst ólst upp hjá foreldrum
sínum og systkinum á Laugalæk
við Kleppsveg og gekk í Laugar-
nesskóla og síðan Gagnfræða-
skóla Vesturbæjar til 1947. Hann
Hinsta kveðja, úr fjarlægð, til
svila míns Ágústs Karlssonar eða
Nanna eins og hann var ætíð
nefndur í okkar hópi. Við vorum
kvæntir nánum systrum. Hann
Guðríði Sæmundsdóttur, d. 2009,
ég Dóru Sæmundsdóttur, d. 1998.
Með þeim og systkinum þeirra
og mökum áttum við saman marg-
ar góðar stundir. Í þessum stóra
hópi ríkti mikil gleði og samheldni
og gladdist hver með öðrum á
áfangaskiptum á meðan sorgin
svaf. En hún gleymdi engum og
aftur og aftur hjó hún í sama kné-
runn. Átta af níu systkinum fóru
að segja má á fáum árum og öll
um aldur fram. Þær systurnar
Dóra, Kristín, Ester, Gerða og
Guðríður og bræðurnir allir, Ingi-
mundur, Steinþór og Hafsteinn.
Eftir lifir Elín. Blessuð sé minn-
ing þeirra systra og bræðra. Þeg-
ar hópurinn hittist þá var tekið
eftir honum og hann tók vel á því.
Systurnar allar mjög glæsilegar
og söngelskar og við makarnir að
rifna úr stolti. Dóra var oftast á
gítarnum og Trausti (maður
Gerðu ) á harmonikkunni, Nanni
með tilfinningum miklum spilaði á
skeiðar. Við strákarnir gáfum sko
stelpunum ekkert eftir í söngnum,
sungum gjarna margraddað. Oft-
ast var endað með því að dansa
tangó og valsa, stundum í keppni
og það voru sko tilþrif. Haddi
þóttist vera besti dansarinn en
Steini var ekki alltaf tilbúinn að
samþykkja það.
Matarveislur þeirra systra
kitla enn bragðlaukana. Nauta-
steik Nanna var sælgæti. Þessar
samverustundir lifa í minningunni
sem einar þær allra bestu. Þar
sem ég og Dóra bjuggum allfjarri
hópnum voru samverustundirnar
færri en ella hefði verið. Eftir lát
systranna Dóru og Guðríðar
fækkaði samverustundum okkar
mikið. Við reyndum þó að vera í
sambandi af og til og vissum alltaf
hvor af öðrum í gegnum börnin
okkar. Síðast hittumst við á heim-
ili Unnar dóttur hans í Bjarma-
landinu. Það var eftirminnileg
stund. Þá gengum við tryggilega
frá því að þegar við yfirgefum
þetta jarðlíf verða báðir jarðaðir í
sama leiði í Fossvogskirkjugarði
þar sem þær systur, eiginkonurn-
ar, hvíla hlið við hlið ásamt
tengdaforeldrum okkar, sæmdar-
hjónunum Sæmundi Guðmunds-
syni og Ríkeyju Eiríksdóttur.
En kæri vinur, þú kaust að fara
á undan, enda eldri og hlýtur því
að ráða. Að leiðarlokum streymir
nú um hugann mikið þakklæti til
þín fyrir að vera eins og þú varst,
ekki afskiptasamur en ávallt tilbú-
inn að styðja við okkur Dóru og
börnin þegar til þín var leitað. Ég
finn það nú þegar þú ert burt kall-
aður og spyr mig af hverju vorum
við ekki miklu duglegri að hittast
eftir að þær systur fóru. Við ræð-
um það betur næst er við sjáumst.
Nú hittir þú tengdaforeldra okkar
og öll systkinin og ég spái miklum
fagnaðarfundi. Ég sé Dóru taka
gítarinn. Trausti þeytir nikkuna
og systurnar og bræðurnir taka
vel undir. Tókstu ekki örugglega
skeiðarnar með þér? Ó, ég sakna
ykkar svo mikið.
Elsku Unnur, Helgi, Ármann
og fjölskyldur. Góður faðir og vin-
ur er fallinn frá. Megi góður guð
styrkja ykkur í sorginni. Blessuð
sé minning Ágústs Karlssonar.
Þorvaldur Jóhannsson og
fjölskylda Seyðisfirði.
Nú er hann Gústi Karls vinur
minn allur.
Árið 1965 er ég var 19 ár gamall
gekk ég á fund hans í Tryggingu
hf. Ég falaðist eftir vinnu. Hann
tók mér vel og réði mig á stund-
inni. Síðan þá höfum við fetað stíg-
inn saman í leik og starfi í 53 ár.
Nafni var mikill foringi, hann
var stjórnsamur en hreinskiptinn,
sanngjarn og sérlega glaðlyndur.
Hann hvatti okkur unga fólkið í
Tryggingu hf. til dáða, fól okkur
hin ýmsu verkefni og treysti okk-
ur fullkomlega fyrir þeim. Hann
gleymdi aldrei að hæla því sem vel
var gert. Þetta átti líka við í einka-
lífinu, hann kenndi okkur djarfa
hugsun og ekki síður margt hand-
bragðið sem okkur var framandi.
Við ungu strákarnir í Tryggingu
vorum flestir farnir að byggja
okkur einbýlishús að hans áeggj-
an, rétt upp úr þrítugu. Hann var
alltaf til taks á hliðarlínunni með
góð ráð og verkkennslu.
Það var oftar en ekki að Gústi
greip veskið sitt og rétti smá pen-
ingaglaðning að börnum starfs-
fólks Tryggingar sem leið áttu á
Laugaveginn að hitta mömmu eða
pabba. Gústi var höfðingi.
Svo var það í kringum 1980 sem
Nanni (gælunafn sem mikið var
notað í æsku Gústa) lét undan
flugáhuga sínum og lærði að
fljúga. Honum dugði ekki að njóta
þess einn, hann þurfti að taka alla
vinina með sér. Við lærðum marg-
ir að fljúga fyrir tilstilli hans. Síð-
an eyddum við næstu 35 árunum í
að leika okkur í einkafluginu með
öllu sem því tilheyrir. Þó dró ský
fyrir sólu þegar Ágúst veiktist
hastarlega sumarið 1998 svo hon-
um var vart hugað líf. En með
þrautseigju sinni, glaðlyndi og já-
kvæðni reif hann sig upp úr því og
gat haldið áfram þar sem frá var
horfið.
Nanni var hvatamaður að upp-
bygginu sumarhúsabyggðar fyrir
einkaflugmenn og flugáhugafólk í
Múlakoti í Fljótshlíð. Eins og
venjulega hreif hann menn með
sér og úr varð myndarbyggð með
tugum sumarhúsa. Þau heiðurs-
hjónin Gústi og Gullý byggðu sér
þar fallegt sumarhús. Því miður
entist Gullý ekki aldur til að njóta
þess sem skyldi, en hún féll frá ár-
ið 2008.
Ég kveð heiðursmann, læriföð-
ur og kæran vin.
Guð blessi hann.
Ágúst Ögmundsson.
Á sjötta tug síðustu aldar hóf-
ust kynni okkar Gústa Karls, en
hann var þá að hefja störf hjá
Tryggingu hf. og félagið var eitt af
fyrstu verkefnum mínum í endur-
skoðunarnámi. Ágúst starfaði hjá
félaginu í rúm 40 ár, en fjölhæfni
hans og menntun nýttist vel á hin-
um ýmsu sviðum starfseminnar.
Hann tókst þar á við fjölbreytileg
verkefni og síðustu árin var hann
forstjóri félagsins.
Samskipti okkar Gústa jukust
með árunum og þá mest eftir að
flugið náði tökum á honum. Flugið
varð aðaláhugamál hans og þann-
ig var það allt til dauðadags. Hann
smitaði marga af þessum áhuga
sínum, þar á meðal mig, og var
hann í forystu fyrir nokkrum hópi
áhugamanna í einkafluginu sem
flugu reglulega um víðáttur lands-
ins. Þá var gjarnan farið á nokkr-
um flugvélum og staldrað við á
ólíklegustu stöðum uppi til heiða
eða niðri við strönd og á ísilögðum
vötnum og menn skiptu um flug-
vélar. Þetta eru ógleymanlegar
ferðir fyrir okkur sem þátt tókum.
Gústi setti sig vel inn í alla
leyndardóma flugsins og lagði
áherslu á að menn gættu fyllsta
öryggis.
Gústi fylgdist vel með þjóðmál-
um allt til dauðadags, var fjölfróð-
ur og lagði sig fram um að kynna
sér viðfangsefnin. Hann lagði
mikla vinnu í að efla einkaflugið,
hann átti gott með að ræða við
menn og fá aðra til þátttöku. Und-
anfarin ár hefur nokkur hópur
hist á hverjum morgni í kaffi og
kruðeríi í flugskýli Gústa á
Reykjavíkurflugvelli. Þar hittast
bæði þaulreyndir flugstjórar úr
atvinnufluginu og leikmenn úr
einkafluginu og ræða landsins
gagn og nauðsynjar.
Í Múlakoti í Fljótshlíð hefur
lengi verið flugbraut sem Árni
Guðmundsson, flugmaður og ábú-
andi í Múlakoti, byggði. Á árinu
2001 hafði Gústi forystu um að
kaupa jörðina Múlakot af Árna og
systkinum hans. Stofnað var félag
flugáhugamanna um kaupin og
var markmiðið að skipuleggja
hluta jarðarinnar fyrir frístunda-
byggð félagsmanna með flugvöll-
inn í öndvegi. Allt hefur gengið
eftir, frístundahús og flugskýli
hafa risið og flugvöllurinn er í
góðu standi. Gústi var formaður
stjórnar félagsins frá stofnun þess
til ársins 2017.
En lífið er ekki alltaf dans á
rósum eða flug um loftin blá. Guð-
ríður eiginkona Gústa lést á árinu
2009 og um það leyti fór sjónin að
daprast hjá Gústa þannig að fljót-
lega varð hann að hætta fluginu.
Þetta var mikil breyting en áfram
hélt hann áhuga sínum og um-
ræðum um flugið og kaffistofan í
flugskýlinu er opin enn. Ég hafði
það fyrir venju hin síðari ár að
hringja í Gústa þegar ég fór í flug
frá aðstöðu minni á Rangárvöllum
og biðja hann að geyma fyrir mig
flugáætlun. Nokkrum dögum fyr-
ir andlát hans hringdi ég í hann að
austan á líknardeildina, þar sem
ég hafði heimsótt hann áður, og
sagði; það er plan á ALP. Svarið
kom fljótt, já, lát heyra, og hann
tók við planinu og hjá honum var
planinu lokað að flugi loknu. Hann
hafði orð á því að þetta hefði hon-
um fundist sérlega ánægjulegt.
Honum var mikilvægt að geta
fylgst með og tekið þátt.
Við Guðrún sendum börnunum
og fjölskyldum þeirra innilegar
samúðarkveðjur og þökkum langa
og skemmtilega samfylgd góðs
drengs.
Ólafur Nilsson.
Laust fyrir 1950 kynntust tvær
ungar stúlkur sem komnar voru
til Reykjavíkur til þess að hefja
nám við Fósturskóla Íslands, eins
og hann hét í þá tíð. Þær bjuggu
fyrst um sinn í leigurými uppi á
hanabjálka á horni Eiríksgötu og
Þorfinnsgötu, þar sem Fæðingar-
heimili Reykjavíkur var til húsa.
Önnur þessara stúlkna var móðir
mín en hin Guðríður Sæmunds-
dóttir, Gullý, sem síðar varð eig-
inkona Ágústar Karlssonar, eða
bara Nanna eins og við kölluðum
hann.
Allt frá þeim tíma sem Nanni
var ungur vonbiðill úr Laugarnes-
inu sem fór að gera hosur sínar
grænar fyrir Gullý voru náin
tengsl og vinátta á milli foreldra
minna og þeirra. Þau tengsl urðu
enn nánari eftir að Nanni benti
foreldrum mínum á lóð sem losn-
aði skáhallt við lóð sem þau Gullý
voru að reisa framtíðarheimili sitt
á við Bjarmaland 17 í Fossvogi.
Fór svo að foreldrar mínir tóku
sig upp frá Siglufirði sumarið
1972 eftir 10 ára búsetu og fluttust
í Bjarmalandið. Nágrannasam-
býlið varði því í hartnær 50 ár og
síðasta heimsókn pabba til Nanna
„yfir á sautján““ var mánudaginn
26. mars. Daginn eftir fór Nanni á
líknardeildina.
Sjálfur var ég heimagangur hjá
Nanna og Gullý um árabil og
Helgi sonur þeirra æskuvinur
minn. Ávallt var mér tekið opnum
örmum og gjarnan lét Nanni ein-
hver hnyttin orð falla eða var eitt-
hvað að púkast í okkur vinunum.
Allt til þess gert að kalla fram
bros eða hlátur. Þá átti Nanni það
til að gera hluti með okkur krökk-
unum í götunni sem fáum öðrum
hefði dottið í hug. Minnisstætt er
t.d. þegar hann hóaði öllum
krakkaskaranum upp í bíla og fór
með þá á landbúnaðarsýninguna á
Selfossi, líklega árið 1978. Einnig
þegar hann flaug með okkur
Helga 18 ára upp í Þórsmörk á
„Meyjunni“, TF-MEY, um versl-
unarmannahelgi.
Þó að Nanni gerði trygginga-
bransann að starfsvettvangi sín-
um var hann lærður vélstjóri.
Þess mátti glöggt sjá merki af því
sem hann tók sér fyrir hendur úti í
bílskúr. Sem ungum dreng þóttu
mér mikil undur að sjá þar verða
til, nánast frá grunni, heilu bílana
og flugvélarnar. Sýndi það í orðs-
ins fyllstu merkingu hversu mikill
þúsundþjalasmiður Nanni var.
Þar var t.d. Piper Cub-vélin sem
bar einkennisstafina TF-GUL og
sem var heiðgul að lit, smíðuð og
sett saman. Nanni sagði nafngift
vélarinnar ekki vera neina tilvilj-
un, hún stæði fyrir „Gullý-Unnur-
Lilli“, en hann kallaði Helga hér
áður oft síðastnefnda nafninu.
Þó að það hafi æxlast þannig að
ég hafi oftar en ekki verið kallaður
millinafni mínu ávarpaði Nanni
mig oft ýmist Orro eða „nafni“,
enda var ég skírður í höfuðið á
honum. Af þeirri nafngift hef ég
alla tíð verið ákaflega stoltur.
Hefði þó líklega mátt segja hon-
um það oftar. Seinna höguðu ör-
lögin því svo þannig til að ég fór að
starfa á sama starfsvettvangi og
Nanni, en það er önnur saga.
Nú er hins vegar lokið sögunni
sem hófst með vináttu ungu
stúlknanna á Fæðingarheimilinu
við Eiríksgötu og eiginmanna
þeirra. Það er saga sannrar vin-
áttu. Saga sem ég og fjölskylda
mín lútum nú höfði fyrir í djúpri
virðingu og þökk. Hvíl í friði
„nafni“.
Ágúst Orri Sigurðsson.
Ágúst Karel
Karlsson
✝ Elín ArnaBogadóttir
fæddist í Reykjavík
29. apríl 1982. Hún
lést á heimili sínu í
Lundi 16. mars
2018.
Foreldrar Elínar
Örnu eru hjónin
Margrét Einars-
dóttir læknir, f. 4.
janúar 1952, og
Bogi Ásgeirsson
læknir, f. 24. febrúar 1954.
Bróðir Elínar Örnu er Einar
Kári Bogason sál-
fræðingur, f. 30.
mars 1985.
Elín Arna fluttist
tveggja ára gömul
með foreldrum sín-
um til Lundar í Sví-
þjóð, þar sem hún
bjó alla ævi.
Bálför fór fram í
Lundi hinn 4. apríl
sl.
Minningarathöfn
fer fram í Árbæjarkirkju í dag,
26. apríl 2016, klukkan 13.
Lífið kemur manni svo sann-
arlega oft á óvart og ekki er
möguleiki fyrir neinn að vera
undirbúin því óvænta. Elsku
frænka mín með fallega brosið
sitt sem náði til augnanna, hlát-
urinn, einlægnina, innileikann,
falleg ung kona. Með hjarta úr
gulli sem grét, tilfinningar og
hugsanir sem þeyttust um hug-
ann eins og þyrluspaði sem erfitt
var að stoppa. Erfitt er að skynja
og sjá það sem fram fer í huga og
hjarta. Tilfinningum og hugsun-
um er oft flókið og erfitt að greiða
úr þrátt fyrir aðstoð, stuðning,
skilning og viðeigandi meðferðir.
Erfitt var fyrir elsku frænku
mína að komast upp úr beyglun-
um sem urðu til á lífsleið hennar
Það eru margar minningar
sem koma upp í hugann þegar ég
fer að hugsa til þeirra skipta sem
við frænkur hittumst. Undanfar-
in ár hittumst við æ sjaldnar en
það voru jákvæðar hugsanir sem
við skiluðum til hvor annarrar,
einstaka spjall á Facebook, gaf
mikið. Báðar erum við þannig að
vera ekki mikið að bera hugsanir
og tilfinningar okkar á torg,
veruleiki okkar hefur líka oft ver-
ið annaðhvort svartur eða hvítur,
fallegir hlutir glöddu okkur, bæk-
ur, hestar og dýr, þetta áttum við
sameiginlegt ásamt mörgu öðru
sem við fundum þegar við hitt-
umst.
Elín Arna var yndislegt barn,
var gædd gáfum og árvekni sem
hún fékk í vöggugjöf, en veikindi
hennar komu því miður í veg fyr-
ir að hún gæti notfært sér það á
þann hátt sem hún vildi. Hún gat
líka verið lítil skellibjalla eins og
frænka sín. Minnisstætt er mér
sumarið sem ég, afi og amma vor-
um í Stora Råby og fórum á
sveppa- og jarðarberjaakra. Þeg-
ar Elín komst að því að frænka
sín borðaði ekki sveppi með
matnum, sem voru hennar uppá-
hald, gafst hún ekki upp fyrr en
frænka hennar var farin að borða
sveppi með matnum af bestu lyst.
Sama sumar þá átti ég vasadiskó
og þá sátum við ósjaldan saman
og hlustuðum á tónlist, hún með
glettniblik í augunum sínum
Endalaust væri hægt að telja
upp og koma fram með minning-
ar um hana frænku mína en ég
ætla að halda þeim fyrir okkur.
Ég óska þess og vona svo inni-
lega að hjarta hennar sé hætt að
gráta og þyrluspaðinn sé loksins
hættur að snúast. Við sem eftir
erum eigum góðar minningar
sem gott er að hugsa til á erfiðum
stundum þegar söknuðurinn
verður mikill og skilningur okkar
takmarkaður. Fortíðinni verður
ekki breytt. Kjark þarf til að geta
horft til framtíðar.
Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki
breytt,
kjark til að breyta því sem ég get
breytt
og visku til að greina þar á milli.
Minn elskulegi Bogi frændi,
elsku Margrét og elsku Einar
Kári, söknuður ykkar er mikill,
tómarúmið er mikið, yndisleg
dóttir og systir farin í fang ömmu
og afa. Styrkur ykkar, fjölskyldu
og vina kemur ykkur áfram veg-
inn, gefur ykkur aukin styrk og
góða strauma. Hugurinn minn og
strákanna minna er hjá ykkur
Elsku Elín Arna mín, ég veit
að það hefur verið tekið vel á móti
þér af Ásgeiri afa og ömmu Jó-
hönnu og afa Einari og ömmu
Siggu. Megir þú finna þann frið
og þá ró sem þú hefur verið að
leita eftir
Við sjáumst síðar. Elska þig,
þín frænka
Jóhanna Margrét.
Elsku fallega og góða bróður-
dóttir mín hún Elín Arna er farin
frá okkur. Þessi fallega, vel gefna
og klára stúlka. Hún var aðeins
tveggja ára þegar hún flutti
ásamt foreldrum sínum til Lund-
ar í Svíþjóð, þar sem þau fóru í
framhaldsnám. Stuttu seinna
fæddist Einar Kári og var Elín þá
orðin stóra systir. Bogi og Mar-
grét voru dugleg að koma með
börnin til Íslands. Bæði á sumrin
og um jólin, þá var nú gaman að
hitta þau. Ömmurnar og afarnir
voru dugleg að fara til þeirra í
heimsókn. Ég fór líka nokkrar
ferðir til þeirra, en þær hefðu
mátt vera fleiri. Ég man að í einni
ferðinni var Elín svo lítil og var á
barnaheimili. Ég sótti hana á
„dagis“ en fóstran ætlaði ekki að
láta mig fá Elínu því ekki vissi
fóstran hver ég var. En Elín
sagði henni að ég væri Lovísa
frænka frá Íslandi og þetta væri
allt í lagi. Svo brosti Elín prakk-
aralega til mín og setti litlu hönd-
ina sína í mína og svo löbbuðum
við af stað heim. Margar fleiri
minningar koma upp í hugann, en
þær geymi ég fyrir okkur Elínu.
Líf Elínar minnar skiptist í
skin og skúrir, þegar henni leið
vel gekk allt vel. Hún tók stúd-
entspróf, fór að vinna og sótti
námskeið. Hún gaf mér eitt sinn
tvö hálsmen og nælu sem hún bjó
til og þykir mér afar vænt um
það. Henni þótti vænt um dýr,
átti hund og kisur sem hún hugs-
aði afar vel um. Hestar voru líka
vinir hennar og fór hún á mörg
reiðnámskeið þegar hún var
yngri, bæði á Íslandi og í Svíþjóð.
Þegar Elín var 15 ára fermdist
hún í Reykjavík, ég var svo stolt
af þessari fallegu og fínu frænku
minni með sitt fallega síða hár,
fallega brosið sitt þar sem hún
var eina fermingarbarnið í kirkj-
unni. Elín var einstaklega einlæg
og góð, kannski allt of góð og við-
kvæm. En fljótlega eftir ferm-
inguna fór að bera á veikindum
hennar. Hún var heppin að eiga
góða foreldra og bróður sem
vildu og gerðu allt fyrir hana sem
hægt var.
Hún kom til Íslands þegar
Einar Kári útskrifaðist úr HÍ og
kom þá norður til Akureyrar, þar
sem við áttum notalega daga
saman. Við hittumst síðast í
Lundi fyrir nokkrum árum, fór-
um á kaffihús, út að ganga, sátum
saman og spjölluðum.
Elsku besta Elín mín, ég
geymi allar góðu minningarnar
um þig í hjarta mínu og horfi á
fallegu myndirnar af þér.
Guð geymi þig, elsku frænka
mín, sakna þín.
Kveðja frá Lovísu frænku.
Lovísa Ásgeirsdóttir.
Elín Arna
Bogadóttir