Breiðfirðingur - 01.04.1970, Page 37
BREIÐFIRÐINGUR
35
Sagt er að 12 barnanna næðu háum aldri. En af öllum
niðjum sínum unni Ingibjörg heitast dóttursyni, sem hét
Sigurður Sigurðsson. Hann ólst upp á Múla hjá ömmu sinni
og afa og varð prestur eftir afa sinn sr. Nikulás.
Einn af sonum Ingibjargar og Nikulásar var Finnur
Nikulásson, sem lengi var lögréttumaður á Alþingi. Hann
bjó á Múla.
Sr. Sigurður Sigurðsson, dóttursonurinn, sem áður er
getið var prestur í Flatey og á Múla í 54 ár eða frá 1709
til 1753. Hann hóf búskap á Firði en flutti til Flateyjar.
Hann var hár maður vexti og þar eftir gildur, að öllu
vel á sig kominn og fríður sýnum, stilltur í viðmóti, gætinn
í orðum glaðlátur og drengur góður. Hann var snjall pré-
dikari, röggsamur í embætti, lærður vel, vinavandur og
vinfastur.
Kona hans var Guðrún Tómasdóttir, en barna þeirra er
ekki getið. Hún var ekkja eftir mann sinn í 17 ár.
Sagt er, að hún springi af harmi við andlát systur sinnar,
Guðnýjar að nafni, sem hún unni mjög.
Millureim hennar úr silfri hrökk sundur sem brunninn
þráður á barmi hennar, svo þungt varð henni í þessari
hinztu sorg.
Af sr. Sigurði Sigurðssyni tók við á Múla sr. Markús
Snæbjörnsson frá 1753 til 1787 og bjó í Flatey.
Hann var lítt vinsæll, og þótti ekki ganga í spor hins
glæsilega og gáfaða fyrirrennara sinn, sr. Sigurðar.
Sr. Markús var þó mjúkmáll, jafnvel þegar hann var að
segja fólki til syndanna og hafði jafnan á vörum orðtakið:
„Elskan mín,“ með tæpitunguframburði: „Elska ví.“