Breiðfirðingur - 01.04.1987, Page 39
BREIÐFIRÐINGUR
37
í ströngu erfiði þangað til sjór féll yfir tréð. Og ekki var þó
þá losað meira en svo, að við bárum það allt heim með
okkur, og voru þó léttar byrðar. F>að var þegar sýnt, að
ekki var unnt að vinna meira að drumb þessum með járni
einu saman, heldur þurfti annarra bragða að neyta. Var þá
næstu daga unnið að því að útvega þrjá eða fjóra járnmeitla,
mislanga. Þegar þeir voru fengnir og nokkuð af tréfleygum
smíðað, var gengið að því að vinna námuna með áhöldum
þeim sem hér að framan hafa nefnd verið, að við bættum
hömrum og öxum. Var svo unnið að þessu fram eftir haust-
inu, hvern góðviðrisdag, þegar faðir minn var heima. Unnið
var þannig, að járnmeitlarnir voru hamraðir inn í hlið trésins
og byrjað á efri og mjórri enda þess. Þegar járnmeitlarnir
höfðu framleitt rifu, eins og þykkt þeirra leyfði, voru tré-
fleygarnir slegnir inn, til þess að losa meitlana, þeir svo
færðir neðar í sprungu þá, er komið hafði fram undan þeim
áður, og svo koll af kolli. Loks kom járnkallinn til skjalanna,
þegar meitla og fleyga þraut. Var hann þá ýmist notaður sem
meitill og hamraður inn, meðan gekk, eða sem vogarstöng
til þess að spenna upp fleka þá, stærri eða smærri, sem
sprungið hafði fyrir. Stundum var og neytt vogarstangarafls
með viðráðanlegum trjám, svo sem þriggja álna hálfplanka
bútum. Stærsti flekinn, sem við náðum, mun hafa verið c.
fjögra álna langur, c. % al. breiður í efri enda og c. 2 al. í
hinn neðri. Engir unnu að þessu námuhöggi, aðrir en við
feðgar. Var faðir minn kappsamur og duglegur við það, líkt
og þegar hann var að glíma við grjót. Var lagt mikið kapp á
að ná sem mestu upp af brandinum, áður frost og ísa legði á
fjöruna. Þetta hafði reynzt svo gott eldsneyti, bæði loga vel
og vera mjög hitamikið, að um var að gera að birgja sig upp
fyrir veturinn. Var nú fluttur heim á hestum aflinn, venju-
lega tveim eða þrem eftir tveggja til þriggja daga vinnu,
enda varð ekki eldiviðarlaust á Níp þenna vetur. Kom það
sér vel, þar sem að eins var á að skipa tveim drengjasnáðum,
öðrum fimmtán og hinum þrettán ára gömlum, til aðdrátta
að búinu.