Breiðfirðingur - 01.05.2015, Side 68
BREIÐFIRÐINGUR68
hugmyndastrauma sem fylgdu henni til landsins og breyttum vinnu-
háttum.
Vélvæðing og sjómennska voru viðfang næsta hluta. Vélvæðing
í sjávarútvegi hófst á Englandi um miðja 19. öld en náði til Íslands
rétt eftir aldamótin 1900.22 Breiðfirðingar áttu sína frumkvöðla á sviði
vélvæðingar, en þar má nefna Guðbrand Þorkelsson bátasmið sem gerði
tilraunir með smíði róðravélar áður en bátavélar komu til landsins. Þetta
var afar áhugaverð tilraun til þess að gera vinnuna skilvirkari og til að
létta undir með sjófólki.23 Einnig tengdust bræður Guðbrands og fleiri
frá svæðinu framfaratrú og uppbyggingu í greininni. Breiðfirðingar
voru því fljótir að tileinka sér nýjungarnar.24 Fiskveiðar, veiðarfæri,
bátalag og starfshættir tóku breytingum með vélvæðingu og breyttu
ásýnd Breiðafjarðareyja meðal annars.25 Þetta gerði að verkum, líkt og
gerðist erlendis, að markaður myndaðist fyrir sjávarafurðir og sjósókn
varð að merkilegi starfsgrein. Sökum þess voru ekki lengur allir sem
vettlingi gátu valdið sendir af stað út á sjó til að afla matar heldur varð
að velja þá sem áttu að vera á launum og sækja vinnu út fyrir heimilið.26
Hlutverkaskiptingin á milli kynjanna varð meira áberandi en áður.
Nýjar starfsgreinar í sjávarútvegi skutu rótum með vélvæðingu ís-
lenska flotans. Smíða þurfti vélar hér á landi og sinna þurfti viðgerðum
á þeim.27 Aukning aflans kallaði á skilvirkari vinnslu í landi. Við sjávar-
síðuna myndaðist byggð í kringum atvinnustarfsemina. Ekki var um
eiginlega borgarmyndun að ræða eins og þekkt er, breytingar urðu þó
áþekkar og í iðnaðarborgum erlendis. Líkt og borgir uxu víða samfara
því að verksmiðjur skutu upp kollinum urðu til þéttbýliskjarnar við
sjávarsíðuna með vinnslu sjávarfangs sem krafðist nýrra starfshátta og
skapaði annars konar samfélagsform.
22 Jón Þ. Þór: Uppgangsár og barningsskeið, bls. 14-19 og Óðinn Haraldsson: Vélvæðing
bátaflotans, bls. 17–18.
23 Lúðvík Kristjánsson: „Róðravél Guðbrands Þorkelssonar“, bls. 7–14.
24 Sjá Þórunn María Örnólfsdóttir: Hið breiðfirska lag, bls. 33–37.
25 Andrés Straumland: „Hvað bíður ykkar, Breiðafjarðareyjar?“, bls. 74–79.
26 Guðmundur Jónsson: „Hvers kyns velferðarkerfi? Ísland í spegli hinna kvenvænu
velferðarkerfa á Norðurlöndum“, bls. 191–193 og 198.
27 Óðinn Haraldsson: Vélvæðing bátaflotans, bls. 25.