Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Blaðsíða 50
Va l u r G u n n a r s s o n
50 TMM 2010 · 3
að sínu leyti líka. Báðar stefnur voru innfluttar, og báðar réttlættar
með vísun í íslenskan þjóðarkarakter og fornsögur. Það er því ekki
hægt að fullyrða að önnur hvor þróunin hafi verið óhjákvæmileg með
vísun í eðli þjóðarinnar. Ekki er heldur hægt að segja að það hafi verið
óslitinn þráður frá Ingólfi Arnarsyni til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar,
þó að góðærismenn hafi reynt að halda slíku fram þegar leikar stóðu
sem hæst. Nýfrjálshyggjan var því ekki sjálfgefin, heldur innflutt hug
myndafræði sem náði tengingu við sum einkenni þjóðarsálarinnar á
kostnað annarra.
Ný þjóð í gömlum klæðum
Var íslenska þjóðin einhverskonar frumforsenda Hrunsins? Við höfum
þegar komist að því að ekki hefði verið nóg að skipta út auðmönnunum
eða stjórnmálamönnunum til að koma í veg fyrir hrunið, ef stefnu
nýfrjálshyggjunnar hefði eigi að síður verið haldið til streitu. Það sama
hlýtur þá að gilda um þjóðina alla. Ef önnur þjóð hefði fylgt sömu stefnu
hefði niðurstaðan verið sú sama, enda var það reyndin að allar þjóðir
sem fylgdu þessari stefnu lentu í miklum vanda haustið 2008, þó að
hann hafi verið verstur á Íslandi. Nýfrjálshyggjan er því enn frumfor
senda hamfaranna, en ekki er hægt að kenna eðli þjóðarinnar um.
Bertolt Brecht orti eitt sinn um ótengda atburði í AusturÞýskalandi:
… þjóðin
hefur brugðist trausti stjórnvalda
og getur einungis endurheimt það
með því að leggja sig enn meira fram.
En væri ekki einfaldara
fyrir stjórnvöld
að leysa upp þjóðina
og kjósa sér nýja?21
Ekki er ljóst að það hefði verið nóg í íslenska tilfellinu að skipta íslensku
þjóðinni út fyrir aðra, að minnsta kosti ekki ef hin nýja hefði tekið
nýfrjálshyggjunni jafn opnum örmum og sú gamla gerði. Það sem
breyttist og var forsenda Hrunsins var tilkoma hugmyndafræði nýfrjáls
hyggjunnar, hún er sú breyta sem allt annað var afleiðing af.
Grundvallarvandamálið liggur því ekki í eðli þjóðarinnar, heldur í
þeirri hugmyndafræði sem hún tók upp á undanförnum 20–30 árum.
Þetta eru þrátt fyrir allt góðar fréttir, því auðveldara er að skipta um
hugmyndafræði heldur en þjóð. Íslenska þjóðin hefur verið til í rúm