Tímarit Máls og menningar - 01.09.2010, Side 72
E i n a r K á r a s o n
72 TMM 2010 · 3
að mynda má segja að báðar sögurnar nái hámarki í alveg samskonar
atburði: íslenskt stórbýli er umkringt af fjandmannaflokki sem reynir
að brjóta sér leið inn í húsin án árangurs því að þeir sem fyrir eru verjast
af mikilli hörku í gluggum og dyragættum; árásarmenn eiga þá tvo
kosti, frá að hverfa eða bera eld að húsum, og velja þann síðari.
Í aðdraganda verknaðarins, eftirmálanum eftir hann og raunar
atburðum sem verða við sjálfan brunann í báðum bókum eru margar
merkilegar samsvaranir. Má þar nefna að það sem rekur foringja
brennumanna til óhæfuverkanna í báðum bókum, þá Flosa og Eyjólf
ofsa, eru frýjunarorð konu; án þeirra hefðu líklega náðst sættir án
blóðsúthellinga. En í eftirmálanum eftir Flugumýrarbrennu í Sturlungu
er einnig að finna stórmerkilegan enduróm úr Njálu. (Eða öfugt? …)
Það er í lýsingunni á Oddi Þórarinssyni, sem þá birtist á sviðinu. En þar
blasir við öllum hve hann minnir á Gunnar á Hlíðarenda úr Njálu, og
þá ekki bara í frægum útlitslýsingum sem eru sláandi líkar heldur ýmsu
öðru, eins og til dæmis frásögn af banadægri Odds er hann verst lengi
einn og af miklum hetjuskap gegn flokki vopnaðra fjandmanna. Og
raunar mun þetta atriði, hin augljósu líkindi á milli Gunnars og Odds,
vera eitt það sem helst kveikti í huga Barða Guðmundssonar þá sann
færingu að það myndi hafa verið Þorvarður Þórarinsson, bróðir Odds,
sem skrifaði Njálu, og þá með þeim rökum að þegar þurfti að draga upp
mynd af hraustustu hetju og helsta glæsimenni Njálu hafi höfundurinn
séð fyrir sér sinn glæsta en fallna bróður.
Enn vil ég endurtaka að Barði flytur sitt mál af miklum kænleik og
visku. En verð líka að segja aftur að hann verður að taka á sig stóran
krók framhjá Sturlu Þórðarsyni höfundi Íslendingasögu til að komast
að þeirri niðurstöðu sem hann kýs sér. Öll vitum við, unnendur
bókmennta, að afkastamiklir höfundar eiga í sínum vopnalager mann
lýsingar sem þeir margnota í sínum bókum; ég læt mér nægja að nefna
góðmenni Dostójevskís og taóista Halldórs Laxness, en dæmin eru
auðvitað mýmörg.
Fyrsta skýringin og hin augljósasta á því að sama mannlýsing og
samskonar orðalag sé að finna í tveimur bókum er auðvitað sú að þar
stýrir sami maður stílvopninu.
Svo einfalt er það.