Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Blaðsíða 40
JÓRUNN SlGURÐARDÓTTIR
hætti svo hún hætti að endurtaka sig. Þessi fortíð er fasisminn sem
Austurríkismenn gerðu aldrei upp við heldur skákuðu til hliðar sem
aflokuðu tímaskeiði. En Elfriede finnur líka sjálf til útilokunar vegna
viðfangsefnanna sem hún hefur valið sér, auk þeirrar útilokunar sem
textinn skapar. „Grimmur vindurinn blæs og rífur allt með. Allt þyrlast
í burt, eitthvað út í buskann en aldrei aftur inn í þennan raunveruleika
sem skal skilgreindur,“ sagði hún í ræðunni og spurði síðan:
Hvernig á skáldið að þekkja raunveruleikann þegar það er einmitt hann sem
þrengir sér inn í það og hrekur það út fyrir, gerir það stöðugt meira utanveltu?
Þaðan sér skáldið öðrum þræði betur um leið og það fær ekki dvalið í raunveru-
leikanum. Þar á skáldið engan stað. Staður þess er ævinlega utan við.
Eins og áður kom fram er Elfriede Jelinek hámenntaður orgelleikari,
leikhús- og listfræðingur. í tæp fjörutíu ár hefur hún af meiri einurð en
flestir aðrir barist með tungumálinu gegn þessu sama tungumáli í þeim
tilgangi að opinbera aðferðir kúgunar. Með tungumálið sem verkfæri
hefur hún skilgreint og gagnrýnt hefðir, venjur og viðteknar brautir
hugsunarinnar sem tungumálið framleiðir og endurspeglar samtímis.
Tungumál hennar er músíkalskt og vitsmunalegt í senn, fullt af útúr-
snúningum og afhjúpunum. Klisjur eru eitur í beinum hennar og texta-
legar vísanir hennar ýmist úr djúpum sögu tungumáls og menningar
eða gripnar upp úr götumáli augnabliksins. Það er þetta einkenni sem
gerir að verkum að bækur hennar eru sagðar erfiðar aflestrar. Um leið
eru það tök hennar á tungumálinu, nákvæmnin og tortryggnin gagn-
vart viðtekinni fagurfræði þess, sem gera bækur hennar heillandi.
Erindið er vissulega brýnt og nákvæmnin getur virkað þrúgandi en við
nákvæmari lestur kemur húmorinn líka í ljós.
Elfriede Jelinek er óútreiknanleg í skrifum sínum en Jíka útreiknan-
leg. Hún skrifar um eignarhald, um náttúru, um ofbeidi, áráttur, kynlíf,
kynjun, um kúgunina og átökin sem þessir þættir ala af sér aftur og
aftur og aftur. Vegna upprunans hefur fasisminn og staðföst barátta
skáldkonunnar fyrir því að hann fái aldrei aftur að blómstra verið í
fyrirrúmi í verkum hennar, en nokkur þeirra skulu hér gaumgæfð.
Skáldsagan Die Klavierspielerin fPíanóleikarinnj kom fyrst út hjá
Rowolt forlaginu árið 1983. Sagan um píanókennarann Ericu Kohut
vakti strax mikla athygli og þeir sem ekki höfðu látið sannfærast um
færni og erindi Elfriede Jelinek sem rithöfundar þegar skáldsagan Die
Liebhaberinnen (Ástkonurnar) kom út árið 1975 gerðu það núna. Píanó-
leikarinn hefur yfirleitt verið fyrsta verk Elfriede sem þýtt hefur verið á
önnur tungumál, raunar oft líka það eina. Árið 2001 gerði Michael
38
TMM 2006 ■ 1