Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Page 67
Skáldsagan og samtíminn
meginhluti sögunnar er þó lagður undir annað: sögu um sögur þar sem
ólíkir rithöfundar segja sömu eða svipaða sögu frá ólíkum sjónarhorn-
um.
Margir kaflarnir eru vel skrifaðir, sem kemur ekki á óvart í ljósi fyrri
bóka Stefáns Mána. En það sem flestir sögumennirnir eða rithöfund-
arnir sem taka til máls í bókinni eiga sameiginlegt er óbeit eða ofnæmi
fyrir öllu og öllum sem birtist í miklum áhuga á kúk og skít. Bókin er
ein samfelld útmálun á ógeði og úrkasti sem sögumenn hennar sjá
hvarvetna.
Sem ádeila er sagan máttlítil og sem umfjöllun um bókmenntalíf eða
rithöfundaraunir sömuleiðis. Ádeilan er máttlaus þegar allt er undir
sömu sökina selt, það er vandséð hvað er verið að gagnrýna eða hvort
verið er að gagnrýna eitthvað yfir höfuð. Sagan er full af fremur ógeð-
felldum og lítilsigldum persónum. Niðurstaða sögumannanna flestra
virðist sú að fólk sé aumingjar og fífl. Vangaveltur og tilraunir með
frásagnarform sem mynda hina meginstoð bókarinnar vekja ekki held-
ur áhuga, bæði tilraunir Stefáns með frásagnartækni og vangaveltur
sögumanna um fagurfræði og skáldskap rista fremur grunnt.
Tvær skáldsögur ársins reyna hvor á sinn hátt að greina og gagnrýna
nýfrjálshyggjuna, þá hugmyndafræði sem hefur haft hvað mest áhrif á
samtíma okkar síðustu áratugi. Þetta eru Barnagælur Óttars Martins
Norðfjörð og Hinir sterku eftir Kristján Þórð Hrafnsson.
í Barnagælum fetar Óttar meðvitað í fótspor ameríska rithöfundarins
Brett Easton Ellis. Rétt eins og Ellis í American Psycho útmálar Óttar
hugarheim viðbjóðslegs glæpamanns, barnaníðings og morðingja á
grafískan hátt. Raunsæi af þessu tagi býður alltaf þeirri hættu heim að
það sé misskilið sem það klám sem það er að reyna að slást við, og þetta
urðu örlög Barnagæla. I ritdómi Páls Baldvins Baldvinssonar í DV var
engin tilraun gerð til að skilja eða greina söguna heldur var henni hafn-
að umyrðalaust sem vel stíluðum viðbjóði.
En auðvitað hangir meira á spýtunni. Lýsing Óttars á barnaníðingn-
um og alþingismanninum Pétri B. Ásgeirssyni er jafnframt greining á
samfélagi og hugmyndafræði sem skapar mann af nákvæmlega hans
tagi. Hann er einstaklingshyggjan og græðgin holdi klædd, persóna sem
keyrir sérhyggjuna í botn. Annað fólk er eins og hverjir aðrir hlutir í
hans augum, tóm form sem hann getur ráðskast með að vild. Rétt eins
og Patrick Bateman í American Psycho er hann heltekinn af eigin lík-
ama sem hann ræktar og snyrtir með það fyrir augum að gera hann eins
sléttan og harðan og mögulegt er. Þetta er verulega grimm ádeila og ein-
hver myndi halda því fram að hún sé beinlínis ósanngjörn, en hún er
TMM 2006 • 1
65