Íþróttablaðið - 01.05.1978, Blaðsíða 45
endur Vestmannaeyinga og Akurnes-
inga.
FH-liðið byggir alltof mikið upp á
þremur leikmönnum, þeim Viðari
Halldórssyni, Janusi Guðlaugssyni og
Ólafi Danivalssyni. Ef þeir eiga gott
sumar í sumar, þá á FH líka gott sumar,
og svo öfugt. Það sýndi sig í fyrra að
þegar FH tekst upp þá leikur liðið af-
bragðsgóða knattspyrnu, en síðan dett-
ur það gjörsamlega niður á milli.
Framarar hafa nú endurheimt Guð-
mund Jónsson, Mumma, sem þjálfara,
og verða sennilega um miðja deild.
Vandamál þeirra er það, að þeir hafa
orðið að yngja lið sitt alltof snögglega
upp. Ungu mennirnir sem eru að koma
inn í liðið eru allir mjög efnilegir, en
þeir þurfa 2—4 ár, til þess að öðlast
þann þroska og þá reynslu sem þarf í 1.
deildar keppninni.
Inntakið hjá Þrótturum að þessu
sinni verður að halda sér í deildinni, og
takist það, er ekki ólíklegt að liðið festi
þar rætur. Þróttur nýtur þess núna að
hafa þann þjálfara sem ég tel einn
fremsta íslenzka þjálfarann, Þorstein
Friðþjófsson. Ég held, að ef honum
tekst ekki að halda liðinu í deildinni, þá
hefði engum öðrum tekist það.
Sama og hjá Þrótturum verður uppi á
teningnum hjá KA, markmiðið verður
að hreiðra um sig. KA byggir meira á
eldri mönnum en Þróttur. Það kann að
verða þeim notadrjúgt í sumar, en sú
hætta skapast einnig að yngja þurfi lið-
ið of snögglega upp. Heimavöllurinn
hefur mikið að segja fyrir Akureyrar-
liðið, og þar mun það taka meginhluta
þeirra stiga sem það fær i deildinni í
sumar.
Ég minntist áðan á áhorfendur,
sagði, að Breiðablik hefði ekki jafn
hressa áhorfendur og sum hinna utan-
bæjarfélaganna. íslenzkir knattspyrnu-
áhorfendur eru ótrúlega mismunandi. í
Vestmannaeyjum og á Akranesi eru
menn mjög svo áhugasamir um gengi
sinna manna, þar hitnar oft í kolunum.
Mér finnst oft sem áhorfendur séu of
daufir, en hef þó fundið að stemmingin
er á uppleið. Kringum Valsliðið er til að
mynda mjög svo skemmtilegur kjarni
„Stuðmenn Vals“, en sá klúbbur var
stofnaður án nokkurrar íhlutunar fé-
lagsins, og tel ég til fyrirmyndar, þegar
áhugasamur hópur kemur þannig sam-
an og heldur saman. Ekkert örvar leik-
menn meira en jákvæm hvatning
áhorfenda og áhorfendur mega heldur
ekki gleyma því að sjálfir fá þeir miklu
meira út úr leiknum, ef þeir taka þátt í
honum af lífi og sál — styðja ákveðið við
bakið á sínum mönnum.
Að lokum langar mig til þess að nota
þetta tækifæri til þess að minnast lítil-
lega á drengjaknattspyrnuna, en af
henni hef ég haft nokkur afskipti hjá
Val. Áhuginn hjá drengjunum er hreint
ótrúlega mikill og það er vissulega
skylda félaganna að gera allt sem í
þeirra valdi stendur til þess að hlúa að
drengjunum og leiða þá fyrstu sporin í
þessari skemmtilegu íþrótt.
Hér í Reykjavík búa hins vegar öll
félögin við aðstöðuleysi á þessum vett-
vangi. Það er ekki óalgengt að þau þurfi
að taka á móti allt að 100 drengjum á
æfingar, sérstaklega í yngstu flokkun-
um. Þetta þýðir að einn völlur er ekki
nógur, það þarf marga knetti og 3-4
þjálfara, ef sinna á hópnum sem skyldi.
Flest hafa félögin 2 þjálfara fyrir yngstu
drengina, sem þýðir að unnt er að sinna
40 drengjum sæmilega, en hinir sitja á
hakanum, sem er mjög slæmt.
Verkefnin fyrir þessa drengi eru
heldur ekki nógu mikil. í Reykjavíkur-
mótinu er reyndar keppt í Á-B- og
C-flokkum, en það er bara A-liðið sem
fær að taka þátt í íslandsmótinu.
Drengirnir lifa hins vegar fyrir að fá að
keppa við önnur félög. Það er þeim
ævintýri. Þeir sem ekki komast í Á-lið-
ið, eða bezta flokkinn, verða hinsvegar
útundan og yfir sumarmánuðina líða
3—4 mánuðir sem þeir fá engin tæki-
færi. Reykjavíkurmótið er leikið aðeins
á vorin og haustin, og um eina helgi er
haldið svonefnt miðsumarmót. Það
þarf að sjá drengjunum fyrir nægjan-
legum verkefnum, og markmiðum að
stefna að, ekki bara þeim beztu, heldur
og hinum. Mér er alveg sama hvað
svona mót heitir, en ég veit það að fjöldi
drengja heltist úr lestinni og missir af
þeirri skemmtun og unaði sem íþróttin
getur veitt, eingöngu vegna þess að þeir
fá ekki verkefni við sitt hæfi, né heldur
nægjanlega góða aðstöðu og þjálfun.
Hver tekur við bikarnum í mótslok?
45