Ljósmæðrablaðið - des. 2020, Blaðsíða 74
74
Ása Marinósdóttir er fædd að Krossum á Árskógsströnd í
Eyjafirði 9. febrúar 1932. Hún hóf nám við Ljósmæðraskóla
Íslands haustið 1952 aðeins tvítug að aldri. Móðir Ásu, Guð-
munda Ingibjörg Einarsdóttir, var einnig ljósmóðir og var
Ása kunnug starfinu í gegnum hana. Eftir útskrift starfaði
hún sem umdæmisljósmóðir á Dalvík og í Svarfaðardal um
mánaðartíma, en réð sig svo til starfa á fæðingardeild Fjórð-
ungssjúkrahússins á Akureyri og vann þar til ársins 1958,
utan árs þar sem hún starfaði í Svíþjóð. Eftir að Ása gekk í
hjónaband bjuggu þau hjónin veturlangt í Reykjavík þar sem
Ása starfaði á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Að þeim
tíma loknum tóku þau við búi tengdaforeldra hennar í Kálfs-
skinni á Árskógsströnd þar sem Ása var umdæmisljósmóðir
í áratugi.
Á fyrstu starfsárum Ásu fæddu konur heima, en komu þó
stöku sinnum á heimili hennar og fæddu barn sitt þar. Á síð-
ari hluta þessa tímabils völdu konur oft að fara að heiman og
fæða frekar heima hjá Ásu í Kálfsskinni og liggja þar sængur-
legu. Stundum var þessi ákvörðun tilviljun ein, en það sem
hafði áhrif á ákvörðun kvennanna var að Ása fékk sjálfvirkan
síma á undan öðrum og það jók öryggi að geta haft beint
samband við lækni eða sjúkrahús. Þegar nýtt íbúðarhúsnæði
var byggt í Kálfsskinni fékk Ása hvatningu og styrk frá fé-
lagasamtökum og einstaklingum til að innrétta þar sérstakt
fæðingarherbergi. Það þótti Ásu ágætur kostur þar sem henni
gafst færi á að hlúa að sængurkonum og börnum þeirra án
þess að þurfa að yfirgefa eigið heimili dögum saman eins og
svo oft var raunin. Árið 1966 var Ása kölluð frá matarborði
á aðfangadagskvöld til þess að aðstoða konu í fæðingu. Þá
gekk hún út frá eiginmanni, þremur börnum, því yngsta 8
mánaða gömlu, og öðru heimilisfólki. Hún var sótt á snjó-
bíl vegna ófærðar og keyrð til Dalvíkur þar sem hún tók á
móti barni síðar um kvöldið. Í sömu götu að morgni annars
dags jóla tók Ása á móti öðru barni. Þá var beðið eftir henni í
Svarfaðardal þar sem hún dvaldi í nokkra daga hjá konu, en
Ása komst ekki heim vegna ófærðar. Það var ekki fyrr en á
gamlársdag að þær voru fluttar á fæðingardeild Akureyrar á
snjóbílnum í stórhríð, þar sem konan fór í keisaraskurð. Þessi
jól kom Ása ekki aftur heim fyrr en á nýársmorgun.
Ása starfaði sem ljósmóðir í nærri hálfa öld eða þar til hún
varð rúmlega sjötug. Á síðustu árum starfsævi sinnar starf-
aði hún við meðgönguvernd á Dalvík ásamt því að sinna
áfram sínu umdæmi. Þannig má segja að starfsferill Ásu
endurspegli þær sviptingar sem urðu í barneignarþjónustu
á 20. öldinni þar sem gamli og nýi tíminn renna saman. Hún
var afar farsæl í starfi og skráði hjá sér upplýsingar um allar
fæðingar sem hún var viðstödd og hefur haldið utan um þær.
Gögnin eru merkileg heimild og hafa til dæmis verið nýtt til
rannsókna af barnabarni Ásu sem einnig er ljósmóðir. Á 100
ára afmælishátíð Ljósmæðrafélags Íslands árið 2019 var Ása
gerð að heiðursfélaga fyrir sín vel unnu ljósmóðurstörf.
Portrett:
Margrét Loftsdóttir
Ása Marinósdóttir
Nútíðin og fortíðin mætast